Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Séra Hallgrímur Pétursson

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Séra Hallgrímur Pétursson

Einu sinni var séra Hallgrímur Pétursson á ferð fyrir norðan Ölvishaug eða Ölver í Hafnarfjalli og vakti þá fylgdarmaður hans máls á því að gaman væri að sjá Ölvi upp standa og bað prest neyta nú þess að hann væri kraftaskáld. Þá kvað séra Hallgrímur:

„Bölvaður Ölver, bröltu fram úr bæli þínu;
kynngidraugur, kvalinn í pínu,
komdu og hlýddu máli mínu.“

Þá bólaði á draugsa og kom fyrst upp höfuðið og þótti þeim heldur ófrýnlegt; síðan færðist hann upp allt að miðju. Þá varð fylgdarmaður prests hræddur og bað hann fyrir hvern mun að kveða drauginn niður aftur. Þá kvað prestur þrjár vísur og er þessi ein:

„Kveð ég niður í krafti hans
sem krossinn bar á baki;
allar hallir andskotans
opnar við þér taki.“

Áður en séra Hallgrímur vígðist var hann einu sinni sem oftar á ferð um Borgarfjörð, kom þar að bæ og bað að gefa sér að drekka. Bóndadóttir var úti þegar hann kom og bar nokkur kennsli á hann, gekk svo inn og sagði að skáldið af Akranesi væri komið þó ekki væri hann skáldlegur, en bæði svartur og svipillur enda mundu kvæði hans fara eftir því. Hallgrímur heyrði raus hennar, gekk inn í dyrnar og kvað:

„Ekki skaltu orðasáld
af þér láta heyra:
Heyrt hef ég að hann sé skáld,
hvað sem það er meira.
Fyrri veikstu víf að mér
vondu, en góðu eigi;
enginn maður því unni þér
upp frá þessum degi.“

Eftir það gekk hann innar til hennar, tók í hönd henni og kvað:

„Einn þann muntu eignast þræl
sem ekki er skós síns virði;
sértu hvorki heil né sæl
hér í Borgarfirði.“

Og enn þetta:

„Held ég nú í höndina á þér,
hana ég fyrir mér virði;
engin er sú sem af þér ber
í öllum Borgarfirði.“

Sagt er að kona þessi yrði gæfulítil þangað til Bjarni Jónsson skáld í Bæ í Borgarfirði réð henni að flytja burt úr héraðinu.

Önnur sögn er það um Hallgrím prest að hann kvað tófu dauða og stóð svo á því að tófa lagðist á fé manna í sveitinni og var það hinn mesti bitvargur og kallaður „stefnivargur“ og varð ekki unnin með nokkru móti. Einn sunnudag er prestur messaði og stóð alskrýddur fyrir altarinu leit hann út um kórgluggann og sá hvar tófa var að bíta kind. Varð honum það þá að hann gleymdi hvar hann var staddur og kvað:

„Þú sem bítur bóndans fé,
bölvuð í þér augun sé,
stattu nú sem stofnað tré
steinadauð[1] á jörðunni.“

Þetta reið lágfótu að fullu. En af því séra Hallgrímur hafði varið skáldskapargáfu sinni svo illa og það í miðri þjónustugjörðinni missti hann gáfuna með öllu þangað til hann iðraðist þessarar yfirsjónar og hét því fyrir sér að hann skyldi yrkja eitthvað guði til lofs og dýrðar ef hann veitti sér gáfuna aftur. Leið svo og beið þangað til um haust eitt eða veturinn fyrir jól að fara átti að hengja upp ket í eldhúsi. Var vinnumaður hans að því og fór hann upp á eldhúsbitann og seildist þaðan með ketið upp á rárnar. Enginn var til að rétta vinnumanninum krofin nema prestur. Þá segir prestur: „Talaðu nú eitthvað til mín því nú finnst mér gáfan vera að koma yfir mig.“ Maðurinn segir þá: „Upp, upp,“ og átti við það að prestur skyldi rétta sér upp fallið. En þau orð er sagt að séra Hallgrímur notaði í fyrsta versið í fyrsta Passíusálminum sem hann fór þá að yrkja og byrjar svo:

„Upp, upp mín sál og allt mitt geð.“

Þó segja aðrir svo frá að hann hafi verið búinn með tvo fyrstu sálmana þegar hann kvað tófuna dauða og hafi hann notað þessi orð vinnumannsins í 1. versi í 3. sálmi sem svo byrjar:

„Enn vil ég sál mín upp á ný
upphaf taka á máli því.“

Og þykir það benda til þess að eitthvert hlé hafi orðið á milli þess hann kvað tvo fyrstu sálmana og hinn þriðja, og segja sumir að þetta olli. En aðrir segja að Tyrkja-Gudda kona hans sem ávallt þótti nokkuð blendin í trú sinni hafi átt að fela eða brenna fyrir honum handritið er tveir fyrstu sálmarnir voru búnir og hafi það fengið svo mikið á hann að hann hætti við þá um hríð, en byrjaði aftur á þriðja sálmi eftir nokkurt millibil.

En það var ekki það eina sem Gudda átti að hafa gjört manni sínum til móðs. Sú saga hefur gengið um prestskonu þessa að hún hafi haft goð eitt út með sér úr Algier (Alsír) frá því hún var þar hernumin og vildi hún lengi ekki af láta með nokkru móti að dýrka það á laun hvernig sem prestur taldi um fyrir henni og vildi leiða hana frá þeirri villu. Einn sunnudag lézt hún ætla í kirkju, en kom ekki þangað. Grunar nú prest um athæfi hennar, hleypur því inn úr kirkjunni og kom að Guddu þar sem hún var að tilbiðja goð sitt. Greip hann það þá af henni og er sagt að hann brenndi það fyrir augum hennar, en hún yrði honum alllengi reið síðan.

Sú saga er höfð eftir Vigfúsi prófasti Jónssyni í Hítardal að einn vetur biti refur sauðfé fyrir presti og vannst ekki þó til þess væri leitað. Gudda talaði oft um það tjón sem dýrið gjörði, við mann sinn með beiskju mikilli og geðofsa því hún var skapstór mjög og óþýð í lund. Vítti hún séra Hallgrím og sagði að það sæi ekki á að hann væri kraftaskáld þar sem hann gæti ekki fyrirkomið einum ref. Prestur þoldi lengi vel frýjuorð hennar þangað til eitt kvöld sem Gudda var frammi í búri að hræra flautir að þar kom inn skollatófa til hennar, settist fyrir framan flautakeraldið, geispaði ámátlega upp á prestskonuna og datt síðan dauð aftur á bak. Við það brá Guddu svo að hún leið í óvit og lá svo til þess einhver heimamanna kom að henni. Eftir það létti af bítnum enda er sagt að Gudda hafi aldrei skapraunað manni sínum eins eftir og áður. Þó er það í frásögur fært um hana að einu sinni léti hún rífa hrís og flytja heim á sunnudegi meðan prestur embættaði. En þegar hann kom úr kirkju gekk hann að hrískestinum og í kringum hann. Lysti þegar eldi í köstinn og brann hann upp til kaldra kola; er svo að skilja sem í kestinum hafi kviknað fyrir bænastað prests, svo hafi hann verið bænheitur.

Enn er það sögn um séra Hallgrím að hann var á heimferð við þriðja mann sunnan yfir Brynjudalsvoga. Af því flóð fór í hönd tóku þeir það til ráðs að liggja í Bárðarhelli við fossinn til þess að fjaraði út um nóttina og rynni úr ánni. Förunautum prests þótti illur fossniðurinn og ýrurnar úr honum inn í hellinn. Annar fylgdarmaður prests lá fremstur og gat ekki sofið því honum sýndist ófreskja eða óvættur nokkur sækja að þeim og koma inn í hellisdyrnar. Bað hann þá prest að hafa bólaskipti við sig og lét hann það eftir. Varð prestur nú var hins sama og förunautar hans; er þá sagt að séra Hallgrímur hafi kveðið stefjadrápu þá sem nú kemur og að ófreskjan hörfaði út úr hellinum við hvert stef, en þokaðist aftur nær á milli, unz hún hvarf með öllu. Fyrsta erindið er þannig:

„Sætt með sönghljóðum
sigurvers bjóðum
guði föður góðum
sem gaf lífið þjóðum;
næsta naumt stóðum,
naktir vér óðum
í hættum helsglóðum.“
o. sv. fr.
  1. Aðrir: „stirð og dauð“, og: „steinadauð á mölinni“.