Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Séra Magnús

Þess er getið í fornum frásögnum að séra Magnús hafi prestur heitið hér norðanlands, annaðhvurt á Stað í Kinn eður Helgastöðum; hann var vel að sér um marga hluti. Sagt er hann hafi verið kraftaskáld og vitað frá sér enda urðu margir til að bekkjast til við hann. Hann var kvongaður og hélt bú, en hafði fátt hjúa, varð því oft sjálfur að gegna ýmsum störfum, ferðalögum og öðru.

Einu sinni bar svo til að hann varð að fara kaupstaðarferð um vetrartíma og hafði tvo hesta meðferðis með föggum á, því snjólítið var. Þess er ekki getið að nokkuð hafi fyrir hann komið á leiðinni til kaupstaðarins, en þegar hann fór til baka lagði hann upp á svo kallaða Hvammsheiði sem ekki er ákaflega löng yfirferðar. Þegar hann hafði nokkra hríð farið leiðar sinnar á heiðinni tók að dimma veður og eftir litla stund brast á bylur; prestur missir vegarins vegna snjófalls og dimmu; ræður hann þá af að setjast að, því það sókti líka að nótt; ætlaði hann að grafa sig í fönn. Nú þegar hann ætlaði að fara að taka föggur af hestum sínum veit hann ekki fyrri til en hann heyrir rödd ógurlega og í því bili sér hann baggana í háa lofti. Röddin segir: „Hvursu þykir þér nú að fara?“ „Nógu vel,“ segir prestur. Síðan sér hann hvar að sér vegur draugur af karlkyni. Hann spyr draug hvur hann sent hafi. „Eiríkur á Jódísarstöðum sendi mig,“ segir draugsi, „til þín og bað mig fyrirkoma þér.“ „Það verður nú reynt fyrst,“ segir prestur, „og satt var það að við Eiríkur höfum oft elt grátt silfur saman í kveðlingum, en ég vona að sá sem hefur styrkt mig hingað til að verjast illskukrafti kvæða hans muni einnig styrkja mig á móti þér, þú hinn vondi útsendari hans.“ Síðan glíma þeir og verður sú niðurstaða að prestur vefur hann saman sem líknarbelg, en draugsi smýgur jafnótt úr greipum honum. Í þrjár reisur glíma þeir og fer á sömu leið. Seinast segir prestur:

„Sá hinn saklausi
sem á krossi dó
hann láti þitt illskumagn
hjaðna sem snjó
fyrir hita sólarinnar.
Opnist uppsprettur
æðastraums
lambs hins flekklausa
er líða hlaut
kvöl og krankdæmi
og kvellingar
víst fyrir veröld –
og vondan djöful
batt svo böl gistir
biturt víti.“

Þá lyknaðist draugsi niður, en prestur gekk svo frá honum að sagt er hann hafi ekki aftur komið.

Nú var dagur kominn og upp birt hríðin. Þá heldur prestur áfram, en áður hann heim kemst verður hann enn nú dagþrota. Hann kemur þar fram sem nokkrir klettar eru og þrengsli. Tunglsljós var af og til. Hann heyrir fyrst eitthvurt hark fyrir ofan sig í skriðunni og steinaflug kemur niður. Hann gefur sig ekki að því og heldur áfram. Loks kemur þar að að honum virðist allt í einu verða myrkt fyrir augum sér, loftið þykknar svo hann fær valla dregið andann. Þessu fylgdi fýla svo megn að hann hafði valla slíka fundið. Nú tók hestur hans hinn góði að gjörast tregur og þar kom loks að hann vildi hvergi ganga og nærfellt stóð á afturfótunum undir honum. Þá fyllist prestur megnrar andagiftar og reiði og segir:

„Komi og auki kvæðamegn
kraftur af himnahæðum,
sem stálhárbeittur standi í gegn
straumur úr Jesú æðum.“

Þessa vísu fram ber hann af svo miklum krafti og andagift að allt í einu sundraðist hinn dimmi þokumökkur sem ský fyrir hvössum vindi, loftið þynntist og hesturinn tók að ganga liðugt undir honum. Hann heldur áfram ferðinni og kemur um miðnætti heim til sín, leggst í rekkju og fer að sofa.