Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Séra Sigurður á Brjánslæk rekur út illan anda
Séra Sigurður á Brjánslæk rekur út illan anda
Sigurður prestur Þórðarson á Brjámslæk[1] var talinn með andheitustu klerkum á sinni tíð, og sýndi hann það oftsinnis hversu mikill andakraftur honum var gefinn sem sögn sú sannar er hér skal tilgreina.
Óhreinn andi (eða draugur að því er sumir segja) kvaldi þunglega stúlku eina í sóknum prests þessa og var hún kölluð „djöfulóð“ af alþýðu manna, og af því menn höfðu mikla trú á fyrirbænum hans var hún einn helgidag flutt til Brjámslækjarkirkju er messugjörð fram fór þar og látin setjast undir prédikunarstólinn, en hafðar voru þó gætur á henni. Og að lyktaðri prédikun mælti prestur skrýddur messuklæðum við hinn vonda anda: „Heyr þú hinn vondi ár, veiztu hvað ég heiti?“ Þá svaraði inn óhreini andi fyrir munn stúlkunnar: „Urður, Urður, þú heitir Urður.“ Þá svarar prestur: „Ég Sigurður segi þér og skipa í nafni Jesú Krists, far þú út af stúlkunni.“ Sá þá fólkið mórauða hnoðamyndaða flygsu líða fram eftir kirkjugólfinu og hverfa út um dyrnar en stúlkan varð að stuttum tíma liðnum albata fyrir bæna sakir Sigurðar prests.
Sigurður prestur varaði Guðbrand prest son sinn er hann tók fyrir kapellán mjög við því að ferðast nokkru sinni einsamall yfir svonefnd Reiðskörð hjá Rauðsdal á Barðaströnd eftir dagsetur. Kvað Sigurður líf hans í veði ef hann brygði af því heilræði; hét Guðbrandur föður sínum góðu um það. En nokkru eftir dauða síra Sigurðar fór Guðbrandur einn saman um skörð þessi og fannst þar síðar örendur og voru meiðsl mikil á líkinu; var það slys kennt afturgöngu hins illræmda bófa Sveins skotta Axlar-Bjarnarsonar, sem hafði verið hengdur í skörðum þessum á dögum Brynjólfs biskups Sveinssonar á 17. öld, því eftir aftöku Sveins þótti jafnan mjög reimt hjá dysi hans.[2]
Sagnir eru um það vestra að Sigurður prestur Þórðarson yrði eitt sinn á náttarþeli er hann var að skógarhöggi með húskörlum sínum var við tröllskessu afar stóra og illúðlega. Menn prests sváfu fast í tjaldi sínu, en klerkur gaf sig á hjal við skessu og þorði hún eigi á hann að ráða enda hræddist hún trúarafl hans og lét því ekkert til sín taka því bænir prests andheitar mátti hún ekki yfirstíga. – Næstur Sigurði presti að andríki þykir Markús Mála-Snæbjarnarson Flateyjarprestur hafa gengið.
- ↑ Sigurður Þórðarson var prestur á Brjánslæk frá 1723-'67.
- ↑ Sbr. Hauskúpa Sveins skotta