Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Séra Vigfús og Ólafur í Vindborðsseli
Þegar hann var prestur í Einholti þá bjó maður þar í sveit, í Vindborðsseli, sem Ólafur hét (ég þekkti son hans, Sigurð í Vindborðsseli, nú fyrir nokkrum árum sem var grunaður um að hafa drepið dreng frá Svínafelli í Nesjum). Hann lá alltaf í miklum erjum og illdeilum við prestinn.
Einu sinni ætlar prestur að fara að húsvitja í sókn sinni. Kona hans spyr hann að hvort hann ætli að húsvitja í Vindborðsseli. Það segist hann hafa ásett sér. Hún segist þá ætla að koma með honum þangað. Prestur vill það ekki og segir að það sé svo slæmt veður svo hún lætur það eftir honum að fara ekki, en segir: „Sjáðu þá um að betur fari og ég ráðlegg þér að fara ekki að Vindborðsseli.“
Síðan fer prestur að húsvitja og kemur að Vindborðsseli nokkru eftir dagsetur. Ólafur tekur vel á móti honum og býður honum inn í skemmu og tekur upp úr kistu flösku og setur á borðið og býður presti. Prestur sýpur ekki strax á henni, en eftir nokkurn tíma fer hann að taka tappann úr flöskunni. En í sama vetfangi er hrundið upp skemmuhurðinni og Málfríður prestskona kemur inn og segir: „Fúsi, drekktu ekki úr flöskunni,“ og grípur flöskuna, sýpur á henni og spýtir á gólfið, en hundur sem þar var inni sleikir upp af gólfinu og bráðdrepst strax. Nú segir hún við prest: „Nú er þér óhætt að drekka,“ og hann sýpur á flöskunni og verður honum ósaknæmt.
Einu sinni vildi þessi Ólafur fá stúlku nokkra til sín, en hún vildi ekki fara til hans. Einu sinni hittir hann hana við kirkju og biður hana um að kyssa sig. Stúlkan vill það ekki. Hann segist þá muni kyssa hana samt og kyssir hana. Og um leið og hann kyssir hana setur hann einhverja flugu, sem hann hafði upp í sér, ofan í hana svo stúlkan verður strax bráðveik og ætlar að deyja.
Presti er sagt þetta og hann beðinn ráða og beðinn að taka stúlkuna til bæna, og hann gjörir það og í bænagjörðinni óskar hann þess og biður að það óhreina sem hafi farið ofan í stúlkuna hverfi aftur til þess sem sendi það. Það varð líka orð og að sönnu; stúlkan varð strax heil heilsu, en sendingin fór til Ólafs og hann fékk strax gífurlegt fótmein í hverju hann lá lengi og leiddi hann að síðustu til dauða.