Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Síra Hallgrímur andast

Síra Hallgrímur Pétursson hefir verið talinn hið andríkasta skáld hér á landi af allri alþýðu manna og er enn talinn, og sýnir eftirfylgjandi saga hvað menn hafa haldið hann guði kæran fyrir sálma sína og guðsótta:

Þegar síra Hallgrímur andaðist sáu menn hvar tveir hvítir fuglar liðu í loft upp af húsi því er hann lá í, með skál á milli sín. Í henni var ofurlítið ljós bjart og logandi. Liðu þeir til himna einmitt á sömu stundu og presturinn andaðist.