Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Sagnarandinn
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Sagnarandinn
Sagnarandinn
Jón var orðinn prestur í Nesþingum undir Jökli 1580; bjó hann á Þæfusteini, en árið 1596 bjó hann á Fróðá. Hann bjó og lengi í Nesi. Jón var haldinn fjölfróður og eru margar sagnir um það að honum kæmi fátt á óvart. Það er eitt með öðru að sagt er að hann næði sagnaranda upp á Snæfellsjökli og lægi til þess upp í loft um sex dægur með gapandi munni, en hefði líknarbelg úr frumsfrumsa kvígu í munni sér, en eftir það léti hann andann, þegar hann hafði hamið hann í belgnum, í hrosshófsöskjur sem hann geymdi í frumsafrumsa skinni. Var það og enn sagt að jafnan mundi hann geta sagt fyrir hvort sá maður færi vel eða illa sem hann söng yfir.