Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Seiðkerlingar í Kaupmannahöfn

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Seiðkerlingar í Kaupmannahöfn

Kerling ein finnsk að ætt bjó í Kaupmannahöfn í húsi sér með dóttur sinni og var einn af námsmönnum íslenzkur að ætt til húsanna hjá þeim mæðgum. Hann undraðist yfir því hverneg þær höfðu alltaf nýjan silung á borðum án þess hann yrði var þær keyptu hann. Hann kom því að máli við hina yngri og spurði hana hverneg á því stæði. Hún fór til móður sinnar og mælti fram með honum. Kerling kallaði á hann inn í eldhús og sýndi honum holu ofurlitla ofan í öskustóna. Þar ofan í dorgaði hún og dró upp silung. Hann spurði hana að hvaðan hann væri. Hún sagðist seiða hann til sín úr Vatnsdalstjörn fyrir sunnan land á Íslandi. Fór hann að loknum lærdómsiðkunum sínum til Íslands. Lagði hún þá á tjörnina að allur silungur úr henni skyldi verða að hornsílum og aldrei framar í henni veiðast.

Hjá annari kerlingu var og stúdent utanlands til lærdómsiðkunar á háskólanum, en til húsanna hjá henni. Hann undraði sig á því hvað oft hún hafði nýtt ket eða slátur á borðum. Vingott var með honum og dóttur kerlingar og það svo að hún treysti því að hún mundi fá hann til manns. Fór hún því eftir bæn hans til móður sinnar, en þar eð kerling var sömu trúar sem dóttir hennar lét hún það eftir honum. Sagðist hún seiða til sín sauði þá sem vænstir væru í Vatnsdalshellir. En er hann kom til Íslands fór hann að Vatnsdal og sagði frá háttum kerlingar. Hættu menn þá að undrast sauðahvarf það sem lengi hafði verið og menn höfðu margs til getið hvað valda mundi. Var féð því tekið úr hellinum og minnkaði sauðahvarfið eftir það.

Seinna voru mér sagðar sögur þessar svo að allt er sama sagan og kerlingin ekki nema ein og er seinni sagan réttari að orðfæri. Kunni stúdent þessi sér svo mikið að hann gat hindrað töfra kerlingar; lagði hún því á tjörnina í reiði sinni. Hún hafði annan daginn nýjan silung, en hinn daginn nýtt slátur. Verða þannig báðar að einni.