Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Sending (2)

Brandur hét bóndi fyrir vestan; hann var haldinn margkunnugur. Hann var missáttur við sóknarprest sinn og sendi honum sendingu. Það var um nótt að prestur vaknaði og þurfti að pissa sem ekki er frásögu vert. Þegar hann ætlaði að taka næturgagnið var það fast. Þá kvað prestur vísur þessar:

Svo gamall ég orðinn er,
aldrei fyrr varð hissa.
Slepptu fjandi og fáðu mér
fyrst ég þarf að pissa.
Þú hefir ekki að gjöra grand,
guð minn hjá mér stendur.
Farðu strax og finndu hann Brand,
frá honum ertu sendur.
Ef þú snýr ekki aftur brátt,
örgust myrkra hræða,
skal ég rífa þig rétt í smátt
með römu efni kvæða.

Þá var sleppt. Brandur gaf á lambhús sitt um morguninn og var lengi í burtu. Hans var vitjað og var hann þá dauður og illa útleikinn. Héldu menn að sendingin hefði snúið aftur og drepið hann. Prest sakaði ekki.