Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Sigurður á Öndverðarnesi
Sigurður á Öndverðarnesi
Öndverðarnes heitir bær einn á nesi því sem lengst skagar vestur af Snæfellsnesi. Þar bjó fyrrum maður sá sem Sigurður hét. Hann var hagmæltur vel og þótti vera kraftaskáld. Einn frostavetur lagði ísa mikla alstaðar í kringum Snæfellsnes svo hvorki varð róið frá Öndverðarnesi né annarstaðar undir Jökli. En þar er svo varið sveitarháttum að þar er lítil önnur bjargræðisvon en úr sjónum og ef hann bregzt eða verður ekki stundaður sökum ógæfta eða annara hluta eru Jöklarar illa farnir. Þegar ísinn hafði legið um stund svo ekki varð á sjó komizt kvað Sigurður, og eru þessar vísur þar í:
- „Sunnanvind á sjóinn
- sendi af landátt gróinn
- svo maurungs rífi upp móinn
- magnefld vargfuglsklóin
- með hríðum.
- Rjúki reyðarpallur,
- rifni svo Heimdallur
- að elris jötunn allur
- öskri burðasnjallur
- af bræði.
- Bráðni ís og brotni,
- bið ég þess af drottni,
- sem ryk fyrir stormi rotni,
- rýrð svo bjargar þrotni
- af sjónum.“
Svo brá við daginn eftir að Sigurður kvað þetta að gjörði frostleysu og rokviðri af landsuðri svo allan ís leysti sundur og rak undan vestur í haf. Því urðu Jöklarar fegnir og þökkuðu það þessum kveðling Sigurðar.