Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Skólapiltarnir í Skálholti og galdrabókin

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Skólapiltarnir í Skálholti og galdrabókin

Þeir höfðu heyrt sagt að einhvorn tíma fyrir löngu áður hafði þar verið grafinn galdramaður og með honum einhvor hin stærsta galdrabók, en ekki vissu þeir hvar hann hafði grafinn verið. Þeir vildu umfram allt geta komizt yfir bókina, en sáu engan veg til þess nema vekja alla upp sem þar höfðu verið grafnir. Sérdeilis voru það þrír piltar sem voru í samræði þessu. En þá þeir sáu engvan annan veg en þennan gaf einn sig frá og sagði það mundi ekki svara ómakinu að vekja þar upp alla dauða og gekk því úr félaginu. Hinir tveir fóru um nótt í kirkjuna og skiptu svo verkum með sér að annar fór í stólinn til að seiða þá dauðu eða vekja þá upp og stefna þeim til sín inn að stólnum, en hinn átti að vera í klukknaportinu og passa það að þegar einhvör kæmi með bókina og sá sem var í stólnum væri búinn að taka við henni skyldi hringjarinn slá klukkuna. En af því þeir vissu ekki hvar bókarhöfundurinn var urðu þeir að vekja alla upp og tóku því vissa hluti kirkjugarðsins fyrir í senn. Allir komu úr þeim ákveðna reit og réttu tómar hendur upp á stólinn og svo gekk þar til ekki var óuppvakið nema í norðaustur-hlut garðsins, og nú fór að rísa upp þar. Loksins kemur þar upp mikið stór draugur með bók undir hönd sér mjög þungur og treglegur. Samt vagar hann inn að stólnum og réttir bókina nauðuglega. Hinn sem var í stólnum seilist í móti að ná í bókina því treglega var fram rétt. Þegar hringjaranum virðist að hinn vera búinn að ná handfesti á bókinni slær hann klukkuna og í sama bili hverfa allir draugarnir sem flugur og bókardraugurinn líka með bókina. En stólbúinn er sagt hafi orðið vitlaus á eftir. Og endar svo þessi saga.