Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Skipkomuspár

Fyrir skemmstu var kerling nokkur í Ólafsvík, Steinunn að nafni. Hún hafði ský á báðum augum og var næsta sjóndöpur. Á vorin áður skip komu var það vandi verzlunarmanna að spyrja kerlingu hvort langt mundi þess að bíða að skip kæmu; hafði henni oft ratazt satt á munn. Hún hafði ekki verið vön að ákveða að dagatali hvað langt mundi verða þangað til, heldur einungis að það mundi ekki líða á löngu.

Einhvörju sinni kom til hennar verzlunarmaðurinn og spurði hana hvort nú mundi vera langt að bíða, en hún kvaðst ekkert sagt geta því það sem hún markaði væri ekki komið ennþá. Þetta var um miðjan dag, en um kvöldið segir kerling: „Heldur fljótt kom kaupmaðurinn til mín því nú veit ég að skip er í nánd; því nú er skipið komið til Ennisins. (Ennið er þverhníptur hamar fyrir utan Ólafsvík.) Á fyrri dögum hennar lézt hún hafa haft einhvör mök við Ennisbúa, en það fékkst ekki upp úr henni. Aldrei leið lengra en vika frá því kerling hafði getið um skipkomu og þangað til það rættist.

Önnur sögn er það að kerling ein var í Laugarnesi sem vön var að segja fyrir hvenær skipin færu að koma í Reykjavík á vorin. Hafði hún það til marks að hulduskipið væri komið að Kleppi, næsta bæ fyrir innan Laugarnes, og hafði fyrsta skip verið vant að koma til Reykjavíkur viku eftir það að kerling fór að spá því.