Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Snæbjörn Hákonarson
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Snæbjörn Hákonarson
Snæbjörn Hákonarson
Snæbjörn var bróðir Hákonar þess sem kvað Reimars rímur. Einu sinni hafði maður týnt lykli frá kistu sinni þrílæstri. Snæbjörn kvað upp kistuna fyrir hann og er þetta vísan:
- Djöfull, komdu og dragðu upp skrá,
- dugðu nú við minni bón;
- eg skal gefa þér af mér tá
- og eilíflega vera þinn þjón.
Við það hrökk upp læsingin. En það er sagt frá Snæbirni að hann fórst á sjó undir Jökli, annaðhvort undir Keflavíkurbjargi eða hann rak þar dauðan; er þá sagt að vantað hafi á hann eina tána er hann fannst. Þegar hann var jarðaður var veður afskaplega vont og var það trú manna að í því veðri hefði kölski sótt eign sína alla.