Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Snakksögur

Þær konur sem snakk höfðu máttu gjalda hinn mesta varhuga við að ekki kæmist upp um þær að þær hefðu meðgjörð með hann því að kæmist það í hámæli réð snakkurinn konunni bana, og því til sönnunar eru þessar smásögur tvær:

Prestur nokkur var á ferð í sókn sinni og sá tilbera og reið á eftir honum því hann vildi vita hvar hann ætti heima því hann hafði grunsama konu eina í sveitinni, en þegar hann kom að túngarði á bæ þeim er hin grunaða kona átti heima sprakk hestur hans af mæði; gekk hann þá af honum og hélt heim til bæjar, en snakkur var kominn heim á undan. Konan er hann átti sat út á bæjarhlaði. Hljóp snakkurinn þegar undir klæðafald hennar. En er prestur kom heim á bæinn bað hann konuna að sækja sér að drekka; hún kvað sér svo þungt að hún mætti ei upp standa. Reisti prestur hana á fætur svo snakkurinn sást er reif hana þegar á hol.

Kona nokkur lá á sæng og leyfði þjónustustúlku sinni að skoða allt innanstokks og í búrinu, en bannaði henni að forvitnast neitt um einn sáinn er hún tilnefndi. En griðkonu óx forvitni við bannið og langaði mjög til að vita hvað hann hefði að geyma; réði það því af að skyggnast í sáinn, en er hún lauk honum upp kom þar upp snakkur sem í einu vetfangi þaut upp á loft og reif hina þunguðu konu á hol.

Guðrún bóndakona á Hafrafelli[1] hafði í hyggju að útvega sér snakk og tók mannsbein úr kirkjugarði og vafði um það grárri ull gulri í báða enda og hafði vafning þennan með sér er hún gekk til altaris, en er hún gekk til útdeilingar vildi henni það óhapp til að vafningurinn datt úr barmi hennar og var hann tekinn og brenndur.

  1. Þ. e. í Reykhólasveit.