Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Snakkur sýgur ær

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Snakkur sýgur ær

Annar maður fór að fylgja fé sínu sjálfur vegna þess undirflog gjörðust tíð hjá honum. Sá hann hvar snakkur kom í fé sitt og lofaði hann honum að sjúga sem hann vildi og elti hann síðan mjólkurfullan og seinfæran heim á búrglugga konu nokkurrar. Var konan að strokka. Þegar á gluggann kom kallaði tilberinn: „Af munnagjörðina, mamma.“ Ældi hann síðan hinni stolnu mjólk gegnum gluggann ofan í strokkinn, steypti sér sjálfum á eftir inn um gluggann og skauzt upp undir konuna, og tók maðurinn hann þar.