Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Snorri sækir fé sitt

Einhverju sinni um haust bar það til á Húsafelli að vantaði fé allt. Var þess leitað fyrst, en það fannst eigi. Prestur sagði að hætta skyldi leitinni því að féð mundi þar niðurkomið sem það væri eigi auðfundið. Nokkru síðar lét síra Snorri söðla sér hest og reið af stað og stefndi austur til jökla. Engan vildi hann hafa með sér. Hann var allan daginn á burtu, en um kveldið seint kom hann og var með féð allt með tölu. Fátt vildi hann segja af ferðum sínum, en ekki sagðist hann vilja ráða vini sínum að fara þangað og jafnvel ekki þótt óvinur sinn væri, en samt hefði farið svo á endanum að þeir hefðu skilið féð úr með sér og fylgt sér á leið með það. Héldu menn að hann hefði farið austur í jökla þar sem heitir Jökulkrókur og mundi hafa fundið þar útilegumenn, en þeir hefðu mátt til að láta undan og láta laust féð.