Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Stefna

Að stefna frá sér öllu óhreinu af mönnum og skepnum, kviku sem dauðu, úti og inni, hvort heldur það er af lofti eða jörð. Eftir Sæmund hinn fróða.

Ego, ég Nói Nóason, stefni þér, vættur, vofa, draugur, dís, andi, ár, með svofelldu stefnuvætti, sem fylgir, frá mér og mínum, úti og inni, mönnum sem fénaði, kviku sem dauðu, á sjó og landi, hvort þú ert af austri eða vestri, norðri eða suðri eða þar í millum, af dimmu eða dagsljósi, af sól eður mána, af skýjum eða skini, af dögg eður dreyra, af grasi eður greinum, af tré eður timbri, af moldu eður mauri, af hjarna eður holdi, af baðmi eða beinum, af sjón eður sýnum, af húð eður hári, af tám eður tönnum, af lokk eða lendum, af jöglum eður jarka, nefndum hlutum eður ónefndum, stefnist þér (ef einn er skal svo segja; stefnist ykkur, ef fleiri eru skal svo segja) frá mér og mínum börnum sem mínum hjúum, frændum sem ættfólki allt í níunda lið, til karls og konu. Far nú svo hart sem ljós leggur, leiftran líður, skrugga skriðnar, ský skjálfa, vatn rennur, skip skríður, skúm vekur, valur flýgur dag vorlangan með beinan vind undir báða vængi, hugur hvarflar, mögur til móður, maður til meyjar, vötn til sjávar, blóð til benja, far til foldar og feigur til helju; hver sem þú vera kannt, af helju eða helvíti eður þar í millum, hlutum nefndum og ónefndum eður hverjum mót þú ert af stað kominn með náttúruhætti eða særingum eða svívirðilegri brúkun hlutanna, stefni ég þér að dómstóli drottins og þaðan og í helvíti, að vitni þeirra heilögu stefnuvotta Raguels, Raffaels, Selatyels, Misaels, Mikaels og Anasyels.