Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Sveinn á Eyjum
Sveinn á Eyjum
Sveinn hét maður og var Jónsson; hann bjó á Eyjum í Kaldrananesssókn mestan hluta ævi sinnar og mun hafa náð sjötugs aldri og dáið í tíð Böðvars prófasts Þorvaldssonar (1826-36).
Sveinn þótti forn í skapi og var haldinn margkunnandi af sumum alþýðumönnum á Ströndum og full sannindi þykjast menn hafa fyrir því að Sveinn reyndi með kunnáttu sinni að skemma veiðiskap manna þar um slóðir, en oft er mælt að kukl hans yrði honum sjálfum að óliði. Það var einkennilegt við Svein þennan að hann var allra manna hræddastur við galdur og grunaði því suma þá um fjölkynngismeðferð sem alls eigi voru að því valdir. Þannig þorði hann eigi að halda kyrru fyrir á fiskimiði ef hann sá sjómenn draga upp veifu (flagg) að gamni sínu. Þegar Sveinn vildi varna mönnum frá að verða fiskvarir lét hann leynilega músarbelg undir langbönd á skipum þeirra.