Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Svipir á nýársnótt
Svipir á nýársnótt
Á nýársnótt sjá sumir skyggnir menn í kirkjugarðinum svipi allra þeirra sem jarðaðir verða í garðinum það komandi árið. – Fyrir æði mörgum árum heyrði ég að í Holti í Fljótum hefði verið vinnumaður að nafni Sigurður Sigurðsson († 1852) sem ætíð fór út á nýársnótt og fyrirsagði svo hverjir deyja mundu það árið. Sá hann líkfylgdirnar og að verið var að taka grafirnar.
Þegar séra Jón Eiríksson († 1859) á Undirfelli var uppalningur í Djúpadal í Skagafirði var á Flugumýri vinnumaður sem Guðmundur (?) hét. Hann var vanur að fyrirsegja á nýársnótt hverjir jarðaðir yrðu það ár. Einu sinni báðu Djúpadalsbræður hann nú að segja sér hverjir jarðaðir yrðu það árið. Taldi hann þá alla greinilega upp, þar á meðal einn frá Djúpadal, en hann sagðist ekki þekkja einn sem jarðaður yrði. Bræður lögðu nokkuð lítinn trúnað á þetta, en sögðust þó skyldu vita hversu sannspár hann yrði. Og viti menn! Allir dóu þeir það árið sem hann nafngreindi, og sá ókunnugi varð kerling ein úr Öxnadal sem dó og var grafin á Flugumýri.
Um þriðja mann hef ég heyrt líkt, að hann taldi upp alla sem dæju það árið. Eitt sinn taldi hann alla upp nema hann sagðist ekki getað vitað um einn hver hann yrði, en það varð hann sjálfur.