Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Svuntan
Í þenna tíma er sagt að allur alfaravegur hafi verið út úr mýrum allt hið syðra svo að Sandar væri í þjóðbraut, en aftur hafi mest verið farið yfir fljótið inn með. Einu sinni komu margir austanmenn úr ferðunum árla dags, en gamli Tómas var þá ekki við látinn. Héngu margir klútar og annað skart þar úti á Söndum því sólskin var og hiti, þar á meðal niðurhlutur (kvensvunta) allur lagður með afar fallegum silfurhnapp eins og venja er til. Ræddi einn af ferðamönnum þessum um að gaman væri að reyna hvort gamli Tómas yrði nokkurs vísari þó að hann gripi svuntuna, en ef hann ekki saknaði hennar skyldi hann færa honum hana að vori og „hug sinn með“ fyrir tiltækið. Fór hann svo með svuntuna austur og hengdi hana á stag hjá rúminu sínu. En er komið var fram á jólaföstu morgun einn er maðurinn var að klæða sig kemur hann auga á svuntuna, talar um við konu sína að ómynd sé að halda svona svuntunni. En hún bað hann ekki gegna heimsku þessari því nú væri ófarandi þar eð úti væri fúla-útsynningur með éljakrassa. Ekki gaf hann þessum orðum konu sinnar gaum, heldur greip svuntuna og stakk henni milli fata sinna og hljóp út með sama og heldur áfram leiðar sinnar allt að Söndum. Um daginn kemur Tómas að máli við konu sína og biður hana taka hangiket ofan úr eldhúsi og sjóða, því gestur mundi koma til þeirra í kvöld. Hún hélt hann mundi verða að öðru sannspár en því. En er því var lokið bað hann hana setja upp graut því manninum mundi verða kalt. Hún hélt að engum mundi svo mikið á höndum að ferðast í öðru eins veðri. En er komið var að háttatíma og húsfreyja var háttuð og fólkið og Tómas farinn að reyta af sér fötin er barið á dyr. Tómas fer með ljós til dyranna og lýkur upp. Er þar þá kominn maðurinn með svuntuna nær dauða en lífi af vosbúð, þreytu og kulda. „Ekki áttir þú að hafa fyrir því arna í þessu óveðri,“ segir Tómas; „ekkert lá mér á.“ Bauð hann manninum inn og hjúkraði honum sem hann kunni. Var hann þar hjá Tómasi í fulla viku þar til vegir og veður bötnuðu, vel haldinn, og hentu þeir gaman að þessu öllu saman.