Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Tilbúningur tilbera

Snakkar eða tilberar eru búnir til af konum þannig að fyrst taka þær mannsrif úr kirkjugarði. Á hvítasunnumorgun stela þær koparstykki er þær brjóta úr klukku í kirkju. Síðan reyta þær hár af herðakampi á nýrúinni kind er ekkja á, og í því hári vefja þær mannsrifið og koparstykkið saman, geyma það svo í barmi sér og spýta víni út úr sér á það í næsta skipti þegar þær verða til altaris, og er þá tilberinn gjörður. En næringu verða þeir að hafa af að sjúga konurnar sjálfar og eru slíkar konur auðþekktar af því að þær eru haltar og hafa blóðrauða vörtu líka spena innanlærs er tilberinn sýgur. Þannig má koma tilberum af sér: að láta þá tína saman öll lambaspörð á þremur afréttum og færa sér, því þá springa þeir. Tilsýndar eru tilberar í lögun eins og uppblásinn langi, íbjúgur til beggja enda, og stafnstingast þeir og eru mjög fljótir.

Tilberasmjör þekkist á því að sé kross gjörður í það springur það allt í smámola. Því er sá siður upp kominn að þegar konur hnoða smjör saman gjöra þær kross í það með fingri. Var sú rák ætíð höfð á leignasmjöri því er galzt til stólanna.