Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Torfi á Klúkum
Torfi á Klúkum
Öðru máli var að skipta um Torfa á Klúkum í Eyjafirði sem fyrri er nefndur. Á honum lék mikið orð fyrir galdra; en hann skeytti því að engu og lét hvern sjálfráðan orða sinna um það og þóttist aldrei vera galdramaður.
Einu sinni bar svo undir að stolið var kartöflum frá Pétri prófasti á Víðivöllum, föður dr. Péturs prófessors í Reykjavík. Einn vinnumaður séra Péturs var grunaður um kartöflutökuna; þó þóttu vanta nægar ástæður til að þýfga hann um stuldinn. Húsbóndi hans skipaði honum til þess að koma honum í beyglur að fara til Torfa og biðja hann að komast eftir hver stolið hefði kartöflunum. En vinnumaðurinn færðist undan því fyrst í stað og þegar húsbóndi hans hélt fast á því að hann skyldi gjöra eins og honum væri sagt gekkst maðurinn við öllu saman eftir nokkrar vífilengjur einungis af því hann óttaðist kunnáttu Torfa.