Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Tornæmi drengurinn og kölski
Tornæmi drengurinn og kölski
Einu sinni var dreng komið fyrir hjá séra Sæmundi, sem þótti ókennandi sökum tornæmis, til þess að kenna honum kristin fræði. Drengurinn var mjög ónæmur og gekk fram úr öllu lagi illa að læra; var honum sjálfum raun að því og óskaði löngum að hann væri orðinn næmur. Eina nótt dreymdi hann að maður kæmi til sín og segði við sig hvort hann vildi að hann gæfi honum næmi. Drengurinn þóttist játa því. Draummaðurinn sagði að hann yrði að vinna það til þess að fara til sín á krossmessunni vorið eftir. Drengurinn játti því. Hvarf þá draummaður honum.
Eftir þetta brá svo við að drengur varð svo næmur að Sæmund prest undraði það stórum; en jafnframt varð drengur allur annar en hann hafði áður verið; því nú varð hann óglaður og þunglyndur. Sæmundur prestur tók eftir þessu og fór að ganga á hann hverju það sætti. Drengur færðist lengi undan; en þó kom svo um síðir að hann sagði presti upp alla sögu eins og hún var. Sæmundi brá nokkuð og sagði að þetta mundi ekki hafa verið maður sem fyrir hann bar í draumnum, heldur kölski er vildi heilla hann til sín; en allt um það, sagði prestur, að hann skyldi vera óhræddur og fara sínum ráðum fram. Leið nú af veturinn og fram undir krossmessu.
Kvöldinu fyrir krossmessu sagði Sæmundur við dreng að hann skyldi koma með sér út í kirkju. Þegar þeir voru þangað komnir fór prestur með hann innar að altarinu, færði hann í messuklæðin og fékk honum patínu og kaleik og lét hann snúa sér fram. Sagði hann honum að hann skyldi vera hreyfingarlaus og hann skyldi bjóða hverjum sem til hans kæmi brauð og vín, og ef hinn aðkomni vildi það ekki skyldi hann ekki gegna honum og þó að Sæmundur prestur kæmi sjálfur skyldi hann ekki heldur gegna sér nema hann neytti brauðsins og vínsins.
Því næst fór Sæmundur á burt; en drengurinn gjörði eins og fyrir hann var lagt. Þegar hann hafði verið nokkurn tíma fyrir altarinu kom hinn sami til hans sem hann hafði áður séð í draumnum; sagðist hann nú vera kominn að sækja hann, skipaði honum að fara úr messuklæðunum og leggja af sér það sem hann héldi á. Drengurinn svaraði honum engu, en bauð honum brauðið og vínið. En hinn lézt ekki vera kominn til að þiggja þá þjónustu af honum. Lagði hann þá mjög að drengnum að hann skyldi koma, en drengurinn gaf sig ekki að því og fór hinn svo búinn burtu. Þessu næst sýndist drengnum margir kunningjar sínir koma til sín hver eftir annan og beiddu þeir hann með blíðu og stríðu að fara þaðan sem hann væri. En hann bauð þeim brauðið og vínið og vildu það engir. Þá sýndist honum Sæmundur prestur koma til sín og segja byrstur við sig því hann væri þar og að hann skyldi þegar í stað fara út og leggja af sér það er hann héldi á og koma út með sér. Drengur gegndi ekki að heldur, en bauð honum brauðið og vínið. Sæmundur prestur sneri þá upp á sig og sagðist ekki vera kominn til að þiggja af honum þær góðgjörðir; eftir það hvarf Sæmundur honum. Nú tók drengnum að sýnast alls konar ófreskjur og skrímsli og jafnvel djöflar; þótti honum kirkjan hristast og skjálfa og hélt að hún mundi þá og þegar sökkva eða fara um koll. Varð hann þá svo hræddur að við því var búið að hann mundi sleppa hinum helgu dómum og reyna að forða sér; en í því heyrði hann tekið í klukkuna. Hurfu þá þegar öll þau undur er hann þóttist sjá; en Sæmundur prestur kom inn í kirkjuna, gekk innar að altarinu og bergði á brauðinu og víninu. Hann sagði þá við drenginn að honum væri nú óhætt því að ekki mundi verða á hann leitað framar.
Drengurinn varð lausn sinni alls hugar feginn og þakkaði Sæmundi presti sem bezt hann kunni. Var hann fylgisamur Sæmundi eftir og er sagt að hann hafi haldið næmi sínu til dauða og orðið ágætismaður.