Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Tröllstelpan

Einu sinni var Bjarni á ferðreisu um fjallveg; ekki er getið hvar það var. Þetta var um sumarskeið. En að því að nótt var og gott veður æir hann hestum sínum og leggst fyrir að sofa, því hann var orðinn syfjaður og þreyttur. Þegar hann hefur sofið stundarkorn er kippt óþyrmilega í fæturnar á honum. Vaknar hann þá hastarlega og sezt upp. Sér hann þá rétt hjá sér tröllkonu. Ekki var hún mjög mikil; er hún þá tekin til rásar og hleypur þar eftir fjallinu sem klettabrún er fyrir, og ofan fyrir þá. Fer nú Bjarni að taka hesta sína. Heyrir hann þá sagt undir hömrunum sem tröllkonan hljóp ofan fyrir, með mikillegri tröllaröddu: „Ég sagði það alténd að það var ekki fyrir þig, átta vetra gamla stelpuna, að glettast við drenginn hann Dóra.“