Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Trippið

Einu sinni komu tveir menn til Eiríks og báðu hann að kenna sér galdur. Eiríkur sagðist ekki kunna galdur, „en vera megið þið hjá mér í nótt,“ segir hann. Þeir þágu það. Um morguninn kemur Eiríkur til gestanna og biður þá að ganga út með sér til skemmtunar. Þeir gjöra svo. Komu þeir þá að hesthúsi á túninu og gengu inn í það. Þar sáu þeir inni trippi eitt sem löðraði allt utan í einhverri slepju og var mjög viðbjóðslegt. Þá segir Eiríkur: „Þið verðið að sleikja alla slepjuna af trippinu því arna piltar, ef ég á að geta kennt ykkur nokkuð.“ Þá segir annar gesturinn: „Ekki langar mig svo mikið til að læra galdur að ég geti unnið það til að karra slíkan fjanda.“ „Ekki held ég að ég horfi í það,“ segir hinn og ætlaði undireins að byrja. „Þess þarf ekki heillin,“ segir Eiríkur, „þú mátt ekki læra neitt því þú svífist ekki neins.“ Hinum manninum kenndi hann.

Aðrir segja að Eiríkur hafi kennt þeim manninum sem ekki ætlaði að horfa í að sleikja trippið, en hinum ekki.