Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Uppvöxtur Eggerts
Uppvöxtur Eggerts
Eggert hét maður og var Ólafsson, en ætt hans er oss ókunn. Er það sögn manna að afi Eggerts hafi flutt sig langt að til Flateyjar eftir að hann hafi verið orðinn öreigi sökum harðinda er gengu mikil um það leyti. Voru og foreldrar Eggerts fátæk og ólst hann upp hjá þeim; komu þau honum í kennslu um tíma hjá séra Sigurði Sigurðssyni, er um þessar mundir var prestur í Flatey;[1] þótti presti pilturinn efnilegur og var honum góðviljaður. En aðrir drengir sem voru hjá presti ömuðust við honum sökum þess að hann var þeirra minnstur, fátækastur og lakast búinn.
Eitt sinn sagði hann lagsbræðrum sínum draum sinn, að honum þótti þeir vera að leikum uppi á kirkjugarðinum þar á eynni og reyna til að hlaupa upp kirkjuvegginn og enginn þeirra komast upp á hann nema Eggert. Gjörðu drengirnir gys að því og báru söguna fyrir prest, en hann sagði: „Verið eigi að ganta hann Eggert; draumurinn mun rætast svo að hann mun verða ykkar mestur maður og verður hann sá einasti af ykkur sem eignast hlut í kirkju þessari.“ Rættist þessi spá prests sem síðar skal sagt verða.
- ↑ Hann var prestur í Flatey 1708-1753.