Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Viðbót um Leirulækjar-Fúsa
Viðbót um Leirulækjar-Fúsa
Þar sem Leirulækjar-Fúsi er nefndur í íslenzkum þjóðsögum þá sakna ég[1] ýmsra sagna er ég hefi frá því að ég man fyrst til af honum heyrt og því set ég hér það helzta.
Svo er sagt að þegar Vigfús var barn fór hann til kirkju með móðir sinni, þá hafi vinkona hennar sagt við hana: „Þar er hann Vigfús þinn kominn í kjól og mikið er hann efnilegur,“ hafi þá Vigfús gripið fram í og það með vísu sem sagt er að sé einhver hin fyrsta, en feilið er að ég hefi gleymt henni nema fyrstu og þriðju hendingu, en þær eru sona:
- Nú er hann Fúsi kominn á kjól
- . . . . . . . .
- hann fær aldrei himnaból
- . . . . . . . .
Svo mikið man ég til efnisins að þegar það sem vantar bætist við, þá er vísan mikið ljót. Sálmar eru fyrir víst tveir til sem Vigfúsi eru eignaðir og báðir fremur fallegir. Sagt er að skolli hafi einhverju sinni komið til hans og ráðið honum til að kveða ekki andlega sálma og hafi þá Vigfús kveðið vísu þessa:
- Sver ég það við marinn málm,
- mitt parruk og hattinn
- aldrei skal ég yrkja sálm
- þó eldri verði en skrattinn.
En skolla þókti það ekki nógu nákvæmt heit og kvað þá Vigfús aðra, en af henni man ég ekki nema niðurlagið, en það er sona:
- aldrei skal ég andlegt vess
- yrkja um mína daga —
og hafi hinn þá látið sér lynda.
Sóknarprestur Vigfúsar fann eitthvört sinn að því að fólk væri að ganga út um embætti. Næsta sinn þegar embættað var kom Vigfús inn í kirkju eftir að til var tekið og bar litla og laglega kirnu í snæri á herðunum, en um leið að hann þannig búinn gekk innar eftir kirkjugólfinu kvað hann fyrir munni sér vísu þessa:
- Koppurinn situr hátt á herðum,
- hallast valla má,
- fallegt þing með fjórum gjörðum,
- Fúsi í bænum á.
Eitthvört sinn kom fyrir í predikun hjá sama presti orðin: „Farið frá mér bölvaðir í eilífan eld…“ Stóð Vigfús upp í kórnum, gekk fram í kirkju, tók í hönd prestskonunni og mælti: „Förum við þá Randalín, til okkar talaði presturinn.“
Sami prestur var eitthvört sinn að útdeila fólki fyrir altari og var þar með drengur einn er ekki kunni sér að falla fram. Þá kvað Vigfús vísu þessa:
- Húktu, en stattu ei strákur minn,
- ég strýkti þig værirðu nær mér.
- Gaptu með kjaftinum gikkurinn þinn,
- gáðu hvað presturinn fær þér.
Eitthvört sinn var Vigfús á ferð og kom að bæ einum til að fá sér að drekka; var þá ekki fólk við nema kona ein er var að rugga barni. Hann bað hana finna sér þorstadrykk og sagðist skyldi rugga barninu á meðan. Hún kvaðst svo gjöra skyldi, en beiddi hann að kveða ekkert ljótt fyrir barninu. Vigfús mælti þá: „Ekki skal barnið saka.“ Síðan fór konan, en Vigfús fór að rugga barninu. Þá heyrði konan hann kveða vísur þessar:
- Faðir og móðir furðu hvinn,
- frændur sumir bófar,
- ömmur báðar og afi þinn,
- allt voru þetta þjófar.
- Varastu þegar vits fær gælt
- til vonds að brúka hendur.
- Það er gjörvöll þjófa ætt
- það sem að þér stendur.
Enn er svo sagt að Jón Sigurðsson (skáldið) hafi lagt fyrir að þegar Vigfús væri dáinn skyldi senda til sín áður en hann væri kistulagður. (Ég fer ekki út í það hvört, þetta geti átt sér stað hvað tíma og kringumstæður snertir, heldur fylgi ég munnmælunum.) Þetta var gert, Jón kom og fór inn sem líkið var. Þar var inni dóttir eða fósturdóttir Vigfúsar sem hann hafði beðið að vaka yfir sér og fara aldrei frá sér fyrr en búið væri að kistuleggja sig. Jón skipaði henni út, en þess var ekki kostur, Jón tók þá líkið og hýddi það hæls og hnakka á milli langan tíma þar til upp af líkinu leið þvílíkt sem reykur eða gufa er strax fór ofan yfir stúlkuna og hvarf þar, en hún varð galin. Við því sagðist Jón ekki hafa getað gjört af því stúlkan hefði ekki hlýtt sér í því að fara út, en ekki sagði Jón að neinum mundi verða mein að Vigfúsi þaðan frá.
- ↑ Þ. e. Runólfur Jónsson í Vík.