Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Viðskipti Brands og Bjarna Sveinssonar

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Viðskipti Brands og Bjarna Sveinssonar

Maður hét Bjarni og var Sveinsson. Hann bjó á Vatni í Haukadal. Stóriskógur í Náhlíð á land að vatninu sunnan, en Vatn að norðan. Bjarni bað Brand að leggja saman við sig um veiðina í vatninu; voru þeir og vinir miklir; er og mælt að Bjarni næmi mikið af Brandi; hefur þar jafnan verið veiði góð. Varð það þá að Bjarna tók að gruna brögð Brands og þóttist sjá að hann mundi fjölkynngi viðhafa, því hve mikil mergð silunga honum sýndust fyrir verða í ádráttunum urðu þeir allfáir er til skipta kom og það þó að hundruðum saman virtist honum á land koma. Var sem veiðin hvyrfi nálega öll í skóginn. Bjarni hugði ei að deila um það við Brand og tók ráð það að hafa lagnet við norðan vatnsins er hann lagði með krókstjaka, og tóku margir það eftir honum er veiði áttu í vatninu; vildi hann þá ei eftir það leggja saman við Brand að draga í ósinn; heimti Brandur það þó af Bjarna og var þess eigi kostur; þóttist og Brandur vita að hann veiddi norðan vatnsins, misunnti hann nytja þeirra og hugði nú að hrekkja Bjarna.

Var það þá eitt kvöld að Brandur fór til Kvennabrekku og dvaldist þar alllengi við uppvakningu. Er sagt að upp vildi hann vekja þann duga skyldi því lítinn ætlaði hann Bjarna klektunarmann verða mundi ef í harðbakka slægi. Brandur fékk komið upp draugnum – og ei alllitlum fyrir sér. Þóttist hann þó vita að alls mundi hann við þurfa, skyldi hann fá yfirstigið Bjarna er numið hafði af Brandi. Skipaði hann draugnum að leggjast á vatnið og sveima í net Bjarna; mætti hann svo þyngja þau í drætti að Bjarni þreyttist að draga, en síðan skyldi hann stökkva, þá er minnst varði, yfir höfuð Bjarna og kvað sig vænta að svo mætti yfir taka.

En þar er nú frá að segja að Bjarni gekk til vatnsins að vitja um net sín. Voru þau þá ærið ramdræg og eitt svo yfir tók; tók Bjarna þá að gruna að allt mundi ei heilt vera, tók til sinna ráða og stefndi því á burtu er þyngdi netið, en við þau flaut það ofan á, en þegar sá hann flygsu nokkra á eyri við vatnið undan gili því er Rekagil heitir. Hafði sendingin ei þorað nær Bjarna að koma. Stefndi Bjarni henni þá til sín að koma; fór hún það afar nauðug. Spyr hann hana nú tíðenda og hver hana hefði senda; varð hún þá að segja sem var. Skipaði Bjarni þá draugnum aldrei frið að hafa, hverki í jörð né á, fyrri en hann hefði drepið Brand eður einhvern er honum væri kærastur, en draugur kvað þess öngar vonir eður við sitt færi að sækja að Brandi í bæinn. Bjarni heimti þá að hann færi á glugga svo að með öllu yrði myrkt í baðstofunni.

En þess er að geta um Brand að þenna dag var hann heima í Skógi – og allórótt; þótti honum sem ei mundi sér allt að óskum gengið hafa um viðureign við Bjarna. Var hann inni við öndverðan dag, bauð hann öllum heimamönnum [það], en bannaði öllum út að ganga. En er á leið daginn dimmdi svo á gluggum öllum að eigi sáu handaskil. Við það gekk Brandur út að lyktum; varð hann þegar að verjast og fékk ei komizt í bæinn aftur; hörfaði hann þá í hesthús eitt og varðist þaðan.

Bergur hét sveinn einn ungur er Brandur hafði til fósturs tekið og unni mjög; hann hafði úti verið og lék sér í Skógarkotsmó. Varð það þá er draugurinn sótti að Brandi að hann særði hann svo mjög að hann hörfaði fyrir. Kom hann þá að sveininum Bergi og drap hann; fannst sveinninn síðan blár og blóðugur. Þótti Brandi það orðið hið versta; tók hann þó Berg og flutti í hesthús heim, magnaði hann og skipaði honum að drepa Bjarna ef kostur væri, en ella drepa allar kýr Bjarna. Fór Bergur þá leiðar sinnar.

Nú getur þess um Bjarna að honum gerðist allhöfugt heima á Vatni sem að honum sækti; leitaði hann þá út og var enn allórótt. Þótti honum það ei að líkindum fara að Brandur sendi sér aftur ena sömu sendingu, gekk þó til vatnsins ofan að vita ef nokkur sæi þar missmíði. En er hann kom þar sá hann heim til bæjarins á Vatni. Fjós var á húsabaki og sá hann að strákknapi nokkur skauzt þar inn. Bjarni hljóp heim og varð þess var að þar fór Bergur og hafði nú drepið eina kú hans, en meiru fékk hann ei við komið. Sendi hann Berg nú aftur Brandi. Fór hann þá að Skógi og sótti mjög að Brandi og það svo mjög að aldrei mátti hann heiman vera því þá drap hann bæði heimamenn hans og fénað. Fylgdi draugur sá síðan Brandi. En sagt er að Brandur flytti lík Bergs í Haukadalsvatn og dauður færi Brandur í vatnið og svo Bjarni er hann lézt og köstuðu þeir oft Bergi á milli sín; bryti þá ísinn af vatninu og það í harða frosti er oft ber við, og trúðu því sumir.