Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Á litlum stað lúrir það

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
„Á litlum stað lúrir það“

Einu sinni fyrir mörgum árum bar svo við að ungbarn hvarf á Torfastöðum í Svartárdal. Var þess leitað lengi dags og fram á nótt, en til einkis. Fékk bónda það mikils harms og lagðist hann í rúm sitt þreyttur af leitinni. Sofnaði hann þá skjótt, en jafnskjótt sem hann var sofnaður þótti honum sem kveðið væri á gluggann yfir sér:

Á litlum stað lúrir það
lambið þetta,
upp á fönn eina spönn
fyrir ofan kletta.

Hrökk hann skyndilega upp og gekk þegar þangað er klettarnir voru. Fann hann þá barnið sofandi á harðfenni spottakorn fyrir ofan klettana og sakaði það alls ekki.