Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Álfakýrin

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Álfakýrin

Oft hafa sézt kýr í fjósum sem huldufólk hefur átt og á stundum margar. Það var einu sinni að bóndi fór í fjós sitt á einum bæ er ég man ei nafn, en þetta var á Vestfjörðum. Þá hann kom í fjósið sá hann að grá kýr stóð á flórnum; hann sá að hann átti ei kúna. Bítur hann þá í eyrað á henni so úr blæðir; varð kýrin so hans því hún fór ei burt úr fjósinu.

Um nóttina dreymdi konu hans að henni þótti kona til sín koma og segja: „Illa gjörði bóndi þinn að marka kú mína sér til eignar þar ég er nú bjargarlaus fyrir mig og börn mín þar ég átti ei aðra kú er mjólkað hefði í vetur, en þín skal hann þó njóta að hönum skal ei mein að verða þó með þeim móti að hann gefi mér einn hlut af skipi sínu í vetur hvört sinn er hann rær til krossmessu og láti hann vera út af fyrir sig óslægðan, en ég skal hann láta sækja.“ Þessu játar konan. „Líka vil ég fá kálfinn undan kúnni þá hún ber,“ segir huldukonan; því játar hin, fer hún síðan á burt. Konan segir manni sínum frá samtali huldukonunnar og sín í svefninum og biður hann að bregða ei út af því er hún sagðist lofað hafa, „að hún skyldi hafa einn hlutinn hjá þér, þegar þú rerir, til krossmessu óslægðan.“ Bóndi lofar þessu.

En þegar kýrin bar hvarf kálfurinn strax í burtu; konan lét allan veturinn annars máls mjólk kýrinnar í afvikinn stað; það var altíð kveldmjólkin. En á morgnana var hún altíð í burtu úr fötunni. Kýrin komst í 18 merkur og hélt því vel á sér; undan þessari kú voru aldar margar kýr og urðu flestar vænar; lifa og kýr af því kyni að sögn manna þar vestra.

Bóndinn fiskaði vel þá hann reri um veturinn og vorið so ei hafði hann í annan tíma betur fiskað. Lét hann altíð skiphlutinn afsíðis óslægðan á kvöldin þá hann var búinn að skipta, en á morgnana var hann burtu; gekk so til krossmessu. Daginn eftir krossmessu reri hann og fiskaði vel; lét hann þá skiphlutinn óslægðan í sama stað er hann var vanur að láta hann. En um morguninn var hann kyrr eins og hann hafði við hann skilið um kvöldið; tók hann þá hlutinn til sín og so úr því.

Nú var úti sá tími er huldukonan tiltók hlutinn að hafa enda vitjaði hún ei framar hans og þó hún hafi séð hann í sama stað látinn sem áður hafði gjört verið og vitað að sér væri hann ætlaður þá vildi hún ei hann snerta þar sá tími var endaður er hún hafði tiltekið að mega hans njóta. So ráðvönd og ágengislítil var þessi huldukona, einnin regluleg í sér.