Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Álfakverið

Faðir minn þá hann var í Búðardal hjá frænda sínum Þorsteini sál. Pálssyni og ólst upp hjá hönum, – um veturinn þá hann var sjö eður átta vetra gamall var það einn dag er hann gekk út og þar austur fyrir bæinn og var að leika sér þar um þúfurnar sem unglinga vani er að stökkva yfir polla sem á milli þúfna eru, en leysing hafði verið um nóttina og hríð mikil fram eftir deginum, en þá upp stytti fór hann út að leika sér.

Þá hann var að ganga þar um þúfurnar fann hann dálítið kver á einni þúfunni eins og það hefði verið þar samstundis lagt, þurrt og vel um verndað. Hann tók kverið og skoðaði það; var það þá prentað með smáum stíl og fínum. Hann fór heim með kverið og lýsti því; en enginn þekkti það né átti þar á bæ og aldrei hafði þar heyrzt það sem á því var meðal hvörs að voru margir andlegir sálmar. Var það allra þanki að álfafólk hefði lagt kverið þar til þess að sveinninn skyldi það eignast. Bróður hans, Þorsteini Pálssyni, þótti það sannast vera. Ei kunni faðir minn neitt úr því kveri utan það hér eftir fylgir er ég skrifa hér fyrir neðan:

Sálmurinn.

Adams fall og Evu brotið
eymd margfalda færði í heim;
hartnær var þá hjálpráð þrotið
af hræðilegum synda seim.
Hefðum ei Jesú náðar notið,
nauða hefði magnazt rein.
Fyrirheitið guðs míns góða
gafst oss mönnum jörðu á.
Lífsins gjöf var lausnarinn þjóða,
lauk upp dyrum himna sá;
hann drykkjaði þyrsta, mædda og móða
meinum öllum leysti frá.
Ó, þá náð og miskunn mesta,
minn skapari, gafstu mér;
ó, það hjálpráð allra bezta
allra þinna frelsi er;
ó, þá náð og fegurð flesta
framrunnin er, guð, af þér.
Orð Jakobs í mínum munni
mjúkt ég geymi sérhvört sinn,
af elsku miskunn allri þinni
er ég minni drottinn minn.
Aldrei þínu lofi linni
líknarfulli græðarinn. — Amen.

Vers.

Lofi guð önd og lífið mitt,
lofað sé blessað nafnið þitt,
lofi þig lýðir allir;
lofi guð hjarta, lofi hann sál,
lofi guð tunga, vit og mál,
englar og æðstu hallir;
himnar, jörð, sjór og hafið blátt,
hvör og ein skepna af sínum mátt
og allt hvað hefur andardrátt. — Amen.

Annað vers.

Tóna má tvo fá
traust með hljóða hylli
so saman dilli.

Þetta er upphafsvers á einum sálmi í kverinu; hann kunni ei fleiri þar af eða úr kverinu; en ég hef hér ei fremur skrifað en faðir minn sál. kunni. Vantar nokkuð á að þessir sálmar séu eins andríkir og vorir?

---

Einn jarðfróður maður sagði so forðum um huldufólk:

„Lastvarir halda lögmál sitt
og lifa í friði sönnum,
nema þá andar oft og títt
ama þar fé og mönnum.“

Það er eitt sagt úr huldumanna lögum að [nær] ein rík yngispíka lætur liggja sig heima einn ótiginn mann auðvirðilegan þá skuli hún með því straffast að behalda hönum og missa so arf sinn eftir sína foreldra.