Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Álfapilturinn og selmatseljan
Álfapilturinn og selmatseljan
Það var fyrir austan á einum bæ að bóndi hafði í seli sem víðast var þá í brúki þó nú sé mög aflagt; þessi bóndi lét dóttur sína vera selráðskonu. Einu sinni þá hún var að sýsla með mat kom til hennar piltur dálaglegur og ljúfur í orðum og viðmóti, hér um seytján vetra. Hann heilsar henni blíðlega, en hún tekur hönum [vel] og spyr hann að nafni, en hann sagðist heita Daníel og vera ljúflingur. Hann bað hana að lofa sér að mega koma til sín og gjöra fyrir hana það hún vildi og þyrfti henni til léttirs að hún vildi þá gefa sér hálfmörk mjólkur því móður sín væri veik og mjólkurlaus. Hún sagði hönum væri velkomin mjólkin; hann hélt á dálitlum aski hvítum; hún tók við hönum og lét í hann, en gaf honum sjálfum að borða og sagði hann skyldi koma á hvörjum degi með askinn þó hann ynni ei fyrir sig. Það þótti honum vænt að mega koma til hennar með askinn og þakkar henni mikillega þar fyrir; kveður nú hana og fer með askinn til móður sinnar, segjandi henni frá góðsemd bóndadóttur og hennar orðum. Móður hans kvað henni vel fara og launavert vera, þó sig gruni að angursemi af leiða muni um síðir þó bið nokkur þar á verði. Fer hann nú á hvörjum degi í selið, hafði hann þar mat á hvörjum degi hjá bóndadóttir og mjólk handa móður sinni. Fór hún so úr selinu þá tími var kominn.
Eftir það hún var heim komin vitjaði hann oft til hennar þó enginn þar af vissi. Gerðist hún nú þunguð af hans völdum, fór hún samt í selið eins og fyrri um sumarið og kom hann þar til hennar, léttandi öllu af henni er hann gat. Þar ól hún barnið, en hann sat yfir henni; var hún mjög hart haldin þar af so lá við að liði yfir hana; hann dreypti á hana úr munni sínum við hvað hún hressast tók og frískaðist. Hann fór með barnið til móður sinnar; það var sveinbarn. Móður hans tók við því og sagði: „Ei eru ósköp enduð þó bið á verði;“ hann fór so aftur til bóndadóttir og þjónaði henni með allri alúð þar til hún komst á fætur. Var föður hennar þungt til hennar; hann hafði á hana gengið um það hvör faðir væri að barni því er hún var ólétt að, en hún varðist hönum þar frá að segja. Hafði hann því ógeð á henni; en af smalamanni er í selinu var og stúlku þeirri er þjónaði að með bóndadóttir selmat fékk hann litla vissu þó hann þau þar um frétti.
Um haustið þá sá tími var kominn að flytja skyldi úr selinu var það einn dag að bóndadóttir og ljúflingspilturinn töluðust við; meðal annarra orða er þau töluðu bað hann hana að bíða ógifta í þrjú ár, hvörju hún lofaði so framt að hún því ráða mætti, „en ég er hrædd um,“ segir hún, „að ég fái ei því að ráða fyrir föður mínum og get ég þá ei að gjört, heldur hlýt ég þá frá mínum vilja að ganga.“ Skildu þau þá með trega, þá hún úr selinu fór; hún og kveið fyrir föður sínum þá heim kæmi, og þá hún kom heim var faðir hennar óhýr við hana um hvað ég fremur ei skrifa.
Um veturinn kom vænn maður og ríkur er beiddi bóndadóttur, hvörju faðir hennar strax játaði, en þá það var nefnt við hana bað hún það mætti bíða í þrjú ár. Maðurinn var ei fjærri henni þann frest að gefa, en faðir hennar tók það af, heldur skyldi það fram ganga strax og brullaupið haldast á mánaðar fresti. Þegar hún heyrði að sinn vilji gat ei framgang fengið segir hún við biðil sinn: „Það verður þá so að verða sem faðir minn vill, og fyrst það verður að vera so þá vil ég þú veitir mér eina bón er ég bið þig.“ Biðillinn segir já þar til og spyr hvör bónin sé. Hún segir hún sé sú að hann taki öngvan veturvistarmann án síns vilja. Hann segist ei það skuli gjöra, en hún biður hann að enda vel loforð það; en hann játar því.
Var nú haldið brúðkaupið á tilteknum tíma og gekk það vel fram; gjörði faðir hennar hana vel af garði. Unntust þessi ungu hjón vel; hún var siðferðisgóð og fálát og aldrei gjörði hún að gamni sér. Maður hennar var ogso góðhjartaður og góðgjörandi og mjög bónþægur; voru þau og vel efnuð af auð úti og inni. Liðu so þrjú ár.
Einn dag um haustið á því fjórða ári var bóndi úti. Þá kom til hans maður ei ólaglegur og var með hönum dálítill piltur að bóndi hélt vera þriggja eður fjögra ára gamall, mjög fríður og hýr. Þessi aðkomumaður heilsar bónda. Bóndi tekur hönum og spyr hann að nafni; maðurinn sagðist Vandráður heita og vera að bjarga lífi sínu og sonar síns og segir þar hjá: „Þess vil ég biðja yður, bóndi, að þér lofið okkur að vera vetrarlangt því ég heyri gott af yður sagt og konu yðar.“ Bóndi segir hann skuli það fá ef konu sinni sé það ei á móti. Fer bóndi til hennar og segir henni að hér sé kominn maður fátækur og dáfallegur piltur með hönum, hér um þriggja eða fjögra vetra gamall, og hafi beðið sig veturvistar, hvað hann sagðist ei hafa afsagt, „ef þú værir ei þar þvert á móti.“ Hún segir: „Það muntu muna hvörju þú lofaðir mér, þá ég átti þig.“ Hann segist það hafa munað og þar fyrir hefði hann ei fullkomlega lofað hönum „fyrr en ég talaði við þig þar um, og er það bón mín,“ segir hann, „að þú lofir hönum að vera og barni hans.“ Hún segir: „Það verður þá so að vera þó mér á móti sé og fer það sem auðið verður.“ Fer hann þá út. Segir hann þá við mann þennan að hann skuli velkominn með piltinum vetrarlangt. Lætur bóndi hann þá inn fara og piltinn og fær hönum eitt hús dálítið í að vera um veturinn.
Hann var fáskiptinn og hæglátur; aldrei heilsaði hann húsfreyju eður hún hönum og aldrei töluðu þau orð saman. Hún lét han aldrei mat vanta né það hann þurfti, og piltinn. Leið so fram undir páska og á pálmasunnudag vildi bóndi til altaris vera og áður hann á stað fór til kirkjunnar spurði hann konu sína að hvort hún hefði beðið alla á bænum fyrirgefningar á því er hún hefði kunnað að styggja þá. Hún sagði já; hann sagði: „Og eins veturvistarmann okkar?“ Hún sagði: „Nei, því ég hef hann í öngvu styggt.“ Bóndi sagði: „Það líkar mér ekki; við förum ekki til kirkjunnar fyrr en þú hefur gjört það.“ Hún sagði: „Sjáðu þá so til að þú iðrist ei eftir að þú herðir að mér að ég gjöri það.“ Gekk hún so frá hönum og til vetrarvistarmanns síns þar hann var í sínu húsi og sonur hans hjá hönum. Nú leiðist bónda að hún kemur ekki, fer að vitja hennar og gengur í húsið og finnur konu sína þar og vetrarvistarmanninn í faðmlögum bæði andvana, einnin piltinn grátandi þar yfir standa. Verður nú bóndi mjög hryggur og veit ei hvað hann skal segja; þykist hann nú vera orsök í dauða þeirra beggja, kallar þó á menn til að taka þau og leggja þau til og gjörði útför þeirra heiðarlega, en þann unga svein huggaði hann og tók hann í sína umsjón og ól hann vel upp, giftandi hann vel, og gjörðist hann ágætur maður og átti mörg börn.
Það segir sagan að kona bónda hafi sagt þann seinasta vetur er hún lifði, eftir það að húsmaðurinn kom þangað, þjónustustúlku sinni frá því, hvörnin á stæði þessum nýkomna manni og hann væri ljúflingur og þau hefði kynnzt þann tíma er hún var í selinu fyrir föður sinn, og væri hún móðir að þeim sveini er með honum væri, en hann faðir, og frá öllu sagði hún henni hvörnin til hefði gengið um þeirra sameign og þar með sagði hún henni að þau mættu ei blíðlega finnast. Þau hefðu ei getað náð saman til giftingar og hún vissi það að það yrði þeirra dauða efni og orsök ef þau næðu blíðlega að finnast, en fá ei saman að vera þar elskan hefði so inntekið beggja þeirra hjörtu og því sagðist hún varast nokkuð blíðlega við hann að tala og hann við sig.
Frá þessu sagði þessi stúlka bónda eftir þeirra dauða; og var bóndi aldrei glaður þaðan í frá.