Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Álfar á Ásmundarnesi

Árið 1855 bar það til á Ásmundarnesi seint um sumarið að rekið var fé af stöðli sem venja er til eftir mjöltun. Eru oftast brúkaðir til þessa verks stálpuð börn eða unglingar ef til eru, enda var þar þannin ástatt að unglingur á níunda árinu var vanur að reka og eins var þetta umtalaða kvöld að drengur þessi rak sem hann var vanur, en var vorðið í seinna lagi og mjög dimmt loft. Voru hjónin óttablendin að láta drenginn vera so seint á ferð einan, sérdeilis konan sem var hjartagóð og gjarnt til að undrast um unglinga eða fólk ef á ferð var seint á kvöldum eða væri það lengur burt en henni þókti til standa, beiddi þess vegna bónda sinn vera á flakki með sér um kvöldið til að gá að ef sjá kynnu hvað drengnum liði, en þó til einkis því myrkt var vorðið.

Drengurinn rak kindurnar þangað er honum var sagt, sneri síðan heimleiðis og leit hvurki til hægri né vinstri þar til hann kom heim undir túnið. Liggur þar gatan hjá steini hvurja hann gekk og er alfaravegur. Verður honum þá litið til hægri handar upp að steininum og sér þar standa tvo menn; annar studdi sig upp við steininn, en hinn var að binda á sig skóinn hálflotinn og studdi bakhlutanum að steininum, og sýndist þeir votir í fæturnar og rauðamýrugir. Drengurinn varð hræddur að sjá menn þessa og það sona snögglega er hann átti öngra manna von, hljóp því sem hann mátti mest þar til kom heim og fann hjónin, foreldra sína, er biðu hans. Var hann þá mjög móður og grátandi. Spurðu þau hann hvað að honum gengi. Sagði hann þá söguna eins og hún kemur fyrir sjónir. Þetta skyldu verið hafa álfamenn af engjum heim farandi.

Það var líka nokkrum árum síðar á sama bæ að unglingsstúlka fór þar skammt frá bænum, þó svo að bærinn sást ekki, til að gæta eftir kindum. Sá hún þá karlmann og kvenmann; var hann að slá, en hún að raka, og glampaði á orfið og hrífuna því sólskin var glatt, en fólkið á heimilinu var heima að þurrka hey, og þókti þetta sjálfsagt að hafa verið álfafólk.

Sama stúlkan fór líka öðru sinni eftir hrísbyrði skammt upp frá bænum. Sá hún þá kvenmann bláklæddan með bláan klút yfir höfðinu er menn kalla kollhettu, líka með bláa vettlinga. Ei talaði hún neitt til hennar og ei heyrði hún fótatak hennar en þó fáir faðmar væri millum þeirra. Varð þá stúlkunni með byrðina litið heim til bæjarins og þá hvarf bláklædda stúlkan er var næstum komin að stórum steini er þar stendur á sléttum mel einstakur og er kallaður Dvergsteinn.

Það var ogsvo einhvurju sinni að bóndinn hafði fengið slægjur á öðrum bæ hinum megin árinnar er þar rennur eftir dalnum að hann sá fjárhóp rekinn eftir fjárgötunum fram í dalinn og sagði við það sem hjá honum var að heyvinnunni: „Þar kemur Gísli með kindurnar fram fyrir bergið,“ – skeytti so ei um það framar, en var að vinnu sinni. Leið þá lítil stund þar til hann fór aftur að gæta eftir þessu og var það þá horfið, sá þá enn Gísla koma (so hét smalinn) með kindurnar og var þá allt eðlilegt og hvarf þá hvurugt, maðurinn eða kindurnar. Þókti mönnum þetta skrýtið.