Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Álfar feykja heyi

Þegar Jón sonur Jóns Ísleikssonar fálkafangara var ókvæntur var hann eitt sumar kaupamaður að Hörgslandi á Síðu hjá Jóni hospítalshaldara Jónssyni Vigfússonar frá Varmahlíð. Í túninu á Hörgslandi er hóll einn sem kallaður er Álfahóll, og var það forn trú að ekki mætti slá hólinn, því ef það væri gjört þá kæmi veður so mikið að skaði yrði að og hefði því hóllinn ekki verið sleginn í manna minnum. Jón kaupamaður hafði litla trú á slíku. Og einn morgun þegar sláttumennirnir voru út komnir og voru að slá í kringum hólinn var veður heiðríkt og stillilogn; þá talar Jón kaupamaður um það mundi lítið gera til þó hann slæði nokkuð upp í hólinn því hönum þókti hann grasmikill. Vinnumennirnir vildu það ekki, en húsbóndinn var ekki út kominn, en so fór að Jón réði og sló nokkuð upp í hólinn. Síðan settust þeir niður hjá hólnum og fóru að brýna og var þá logn, en á meðan þeir eru að brýna fer að hvessa í einu kasti. Hey var mikið úti bæði flatt og í sæti og hvessir hann nú so snögglega að heyið fer óðum að fjúka. Í þessu bili kemur húsbóndinn til þeirra og fer að tala um við þá að heyið muni ætla að fara allt út í veðrið, en vinnumennirnir segja að það sé von til því Jón kaupamaður hafi slegið upp í hólinn þó þeir hafi varað hann við að gjöra það ekki. Jón kaupamaður situr agndofa og fer að hugsa með sér að þetta sé þó eitthvað óskiljanlegt og víst muni heyskaðinn allur sér verða kenndur og eftir litla þögn stendur hann upp og tekur orf sitt og segir hátt so allir heyra að ef nokkur sú vera sé í hólnum eða hér nærri sem orsakað hefði þennan mikla storm þá sé hún eins máttug til að lygna aftur og ef hún ekki geri það þá skuli hann nú þegar slá allan hólinn og berja hann utan eins og hann geti, hvað sem á eftir komi, og er illur í skapi og býr sig þegar til að fara að slá hólinn. En að þessum orðum töluðum fer heldur að draga úr veðrinu og bráðlygnir so á skammri stundu og varð enginn heyskaði og var logn og heiðríkja eftir um daginn.

Þessi Jón er nú [1865] bóndi á Hamragörðum undir Eyjafjöllum hálfníræður og sagði hann sjálfur sögu þessa eins og hún er hér rituð. Endar so þessi saga.