Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Álfaskartið

Það bar við á einum bæ í fyrri daga að allt heimilisfólkið fór til aftansöngs á gamlaárskvöld nema ein griðkona var látin vera heima til að gæta bæjarins. Og er allt fólk var til kirkju farið heyrði griðkona hark nokkuð og skömmu síðar var barið að dyrum; fór hún þá með ljós fram í dyrnar og voru þar fyrir allmargir huldumenn og álfkonur. Buðu gestir þessir henni hvert hún vildi eigi dans stíga og tók hún því feginsamlega. Dansaði hún eigi allskamma hríð við álfana, en þær urðu lyktir á dansleiknum að álfar réðu henni bana og lá hún örend í dyrunum er bæjarfólk kom frá tíðum. Á sömu leið fór og hið næsta gamlaárskvöld; fór þá enn allt fólk til kirkju, en lét eina griðkonu vera heima; og er stund leið heyrði hún sem hin fyrri þys allmikinn; var og barið og gestir hinir sömu sem hið fyrra kvöldið. Gjörðu álfar þessir allmikið um sig og buðu mærinni í dans með glensi miklu og lauk svo dansinum að huldumenn hjuggu höfuð af henni á bæjarþrepskildinum og þar fann bæjarfólk hana er það kom frá tíðum.

Nú kemur hið þriðja gamlaárskveld; fara allir af bænum; ein kona dvelst heima og er enginn var orðinn eftir af bæjarfólki nema hún ein sópaði hún innan húsakynni öll vandlega og setti ljós hvervetna er því mátti við koma. Að því búnu settist hún á pall upp og tók að lesa í bók. Heyrði hún þá að skömmu bragði háreysti mikla og læti kynleg; var og barið að dyrum, en hún gaf engan gaum að því, en las sem áður. Komu álfar inn á baðstofugólf og vildu laða hana í dans, en hún sinnti því ekki; dáðist huldufólk mjög að því hve þrifalega allt var þar um garð búið og hversu staðföst hún var við bóklesturinn. Dönsuðu álfar með skrípalátum miklum um nóttina, en er dagur rann mælti vökukona: „Guði sé lof, dagur er á loft kominn,“ en við þessi orð brá álfafólkinu svo að það hafði sig þegar til ferða; setti einn af huldumönnum kistil upp á pallslána og bað meyna að þiggja og hafa skart það er í honum væri, á heiðursdegi sínum. Síðan hurfu álfarnir, en mærin geymdi kistilinn vandlega og lét engan af vita. Komu heimamenn frá tíðum nokkru síðar og þótti vel hafa skipazt er mærin var heil á hófi, en mjög var hvað eina sem á tjá og tundri eftir æðigang álfanna. Þegar mærin giftist lauk hún kistlinum upp sem álfar höfðu fyrir mælt og var þar í gullsaumaður kvenbúnaður og gullhringur og þótti konan glæsileg er hún bjóst í álfaskartið.