Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Álfkona býr með mennskum manni

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Álfkona býr með mennskum manni

Í „Tíðfordríf“, einu skrifi sem so er kallað, er Jón Guðmundsson lærði er var á Vestfjörðum í tíð Brynjólfs biskups, getur um huldufólk sem fleira, hvar af má ráða að hann fulltrúa hefur verið að það fólk til væri, og kallar það þar hálfkyn vort er hér byggjum og búum upp á jarðarhnettinum, og meðal annara frásagna setur hann fram eina frásögu um álfakonu er giftist hér efra einum vorum kynsmanni, og hvörja frásögu ég læt hér fyrir sjónir koma.

Hann segir svo: Í Fjarðarhorni stærra í Fellskirkjusókn í Kollafirði sem ég fyrst kom til búskapar er var 1601, á þeim bæ hafði forðum daga í gömlum tíðum búið einn ungur maður með ljúflingskvensnift og so lengi að þeirra dætur tvær voru vel so vaxnar hér um þrettán eður fjórtán vetra að aldri.

Sú kona hafði hið mesta afbragð verið í allri umgengni og góðsemi, sem og ölmusugjörðum við fátæka, en við alla ljúf og auðmjúk, og öngvu síður kirkjukær en nokkur kristinn hefur verið utan hún hlaut jafnan út að ganga um langa söngva, fórnarupphald og helgan því hún sagði sínum óstyrka anda ofmiklaðist sá kraftur þess leyndardóms sem þar með fylgdi, grátandi það jafnan að hún mætti með þeim kristnu ekkert hlutskipti hafa síðar meir.

Þar komu um síðir tveir ógæfustrákar og illmenni, samtóku með sér að verja henni útgöngu úr kirkjunni þegar hún þurfti; hún ásótti, en þeir vörðu; hún bað þá með tárum og fékk ekki. Þegar hún fann hvað sér leið snerist hún til síns manns og minntist við hann með tárum, en lagði hendur á höfuð dætrum sínum fyrir teikn móðurlegrar ástar og blessaði þær, sprakk síðan og féll niður sem froða, en maðurinn syrgði sig í hel eftir hana, en dæturnar lifðu vel og jóku þar kyn sitt. Það meinast að líkami þessar konu hafi orðið sem limjulegastur og sem froðukennsli að manna áþreifingu.