Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Álfkona fæðir í híbýlum manna
Álfkona fæðir í híbýlum manna
Í þá tíð er Grímur prestur Bessason var ritari hjá Jóni sýslumanni Arnórssyni í Múlasýslu var það eitt kvöld í skammdeginu að hann sat í rökkrinu niður í herbergi sínu. Konan sýslumannsins er hét Guðrún Skúladóttir var vön að leggja sig fyrir í rökkrinu í þessu sama herbergi og ætlaði hún þetta sama kvöld og að leggja sig fyrir og gengur inn í herbergið. En er hún vill ganga að rúminu tálmar Grímur prestur henni að komast að rúminu og biður hana að bíða við sem hún gerir, en verður þó eigi vör við neitt. Að dálitlum tíma liðnum segir hann að menn skuli koma með ljós. Var það og gjört, kvað hann einhvörn vott sjást mundu. Lýsir hann í rúmið og sjást þar þrír blóðdropar. Sagðist hann þá séð hafa konu koma inn í herbergið og leiða aðra við hönd sér og hefði hún lagzt upp í rúmið og alið þar barn og þegar konan sýslumannsins hefði komið hefði staðið á kollhríðinni, og þetta voru tvær huldukonur.