Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Álfkonan á Fossum

Frá 1756 til 1766 bjuggu hjón á Fossum í Svartárdal. Bóndinn hét Halldór, en kona hans Helga. Það var siður hónda að fara lestferð á hverju sumri. Þessi hjón áttu tvo syni; hét sá eldri Árni sem var sjö ára gamall, hinn Jón, sex ára. Fyrir sunnan túnið á fyrrnefndu heimili er melhóll eða hryggur sem liggur ofan að lítilli á er rennur út fyrir neðan túnið á fyrrnefndum bæ. En á áðurnefndum hrygg er standberg við ána eður þverhnípt fram af. Fyrri nefndir drengir höfðu það að leik eins og börnum er tamt að velta steinum ofan af hólnum í ána fram af áminnztum kletti og höfðu mesta gaman af að láta þá hlunkast í ána því hylur var neðan undir. Vani konunnar var að leggja sig lítið eitt út af þegar hún var búin með morgunverk sín.

Einu sinni þegar að hún hafði lagt sig niður og var að festa svefn þókti henni koma inn á gólfið kona á svartri hempu með skautafald, á að gizka svo sem miðaldra, í meðallagi há, en freklega gild. Hún var fasmikil og reiðugleg og mælti: „Ég ætla að biðja þig konukind að passa betur strákana þína og láta þá ekki vera að velta grjótinu um bæinn minn og gjöra börnin mín vitlaus í hræðslu.“ Síðan veik hún burt. Hin vaknaði og eins og segir í sögunni þóktist sjá eftir henni, reis so á fætur og hugsaði með sér að þetta væri hégilja því hún hataði alla hjátrú, en var skarpgerð, gekk þó út og sá drengi sína hvar þeir vóru að í óðaönn að velta steinunum fram af hólnum, gengur síðan til þeirra og bannar þeim að vera að þessu því þeir kynnu að hrökka ofan með grjótinu og lét þá fara heim að bænum með sér. Þar eftir liðu fáir dagar, ég man ekki hvört tveir eða þrír, þá kona þessi hafði lagt sig eftir því sem hún var vön, að hana dreymir þá fyrrnefndu draumkonu og nú verr en áður so henni bauð ótta við, og sagði: „Ekki eru drengir þínir hættir að angra mig og börn mín og skaltu á sjá ef að þú lætur þá ekki hætta þessu,“ fór síðan, en konan hrökk upp, gekk út og sá hvar drengir voru að iðju sinni og kallar hast til þeirra og lofar þeim flenging ef að þeir geri það oftar, rekur þá svo heim á undan sér. En þremur dögum síðar lagði hún sig enn út af eftir vana sínum, en í því hún var að sofna heyrir hún að gengið er inn í baðstofuna og kallað hast: „Helga, far þú og hittu nú stráka þína,“ ekki voru fleiri orð brúkuð. Hún reis fljótlega á fætur, gekk út og sá hvar yngri drengurinn stóð á fyrrnefndum hól, en hinn lá þar hjá honum, gengur til þeirra og tekur í þann sem lá og segir hann skuli snáfa á fætur, finnur þá að hann er máttlaus og mállaus. Ber hún hann þá heim, en lét hinn fá ráðning. Árni lifði þar til á fimmta degi að hann sálaðist með sama mátt- og málleysi. En hinn varð með aldri láns- og þrekmaður, átti þrjú börn og lifir annar sonur hans enn.