Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Álfkonan í Bríkarklöpp

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Álfkonan í Bríkarklöpp

Maður er nefndur Stefán; var hann Þórarinsson; bjó hann á Grýtu í Eyjafirði, mikill og harðgjör. Var hann ógiftur og stóð bú hans með miklum blóma. Var hann talinn með betri bændum norður þar þó enn væri hann ungur. Hann fór á hvörju vori vestur undir Jökul til skreiðarkaupa og átti þar skipti til jafnaðar við efnagóðan bónda einn. Dóttir bónda hét Ingiríður, væn og vinnugóð, fögur álitum. Þeirrar konu bað Stefán og var það mál auðsókt. Skyldi brúðkaupið verða haldið hjá föður mærinnar, hvað og skeði. Flutti hann konu sína norður að Grýtu og bjó þar til elli og átti mörg börn. Var kona hans vitur og ekki frí við hjátrú þá er álfatrú kallast, en bóndi hataði það mjög.

Árið 1707 gekk stórabóla sem eyddi átján þúsund manna á landi hér. Þann sama vetur reið Stefán bóndi heimleiðis úr einhvörri ferð. Liggur þjóðvegurinn fyrir neðan Hanakamb; svo heitir þar einn bær; milli þjóðvegar og bæjar eru klettabelti nokkur; heitir einn kletturinn Bríkarklöpp. Reið bóndi skammt frá klöpp þessari og leit þangað. Sá hann klöppina opna; voru dyr á henni líkt og bæjardyr. Kona stóð í dyrum með kertaljós í hendi. Leit hún til bónda og kvað vísu. Var efni vísunnar að hann mundi í vetur missa tvær tönnur úr hárgreiðu sinni, og er þetta stef í:

Falla á fagra grundu
foldar þakin moldu.

Nú ríður bóndi heim, en konan hverfur og lýkst aftur klöppin. En er bóndi kom heim sagði hann konu sinni fyrirburðinn, en hún kvað það mundi boða fyrir nokkru. Stuttu þar eftir dóu tvö börn þeirra hjóna úr stórubólu sem þá var mjög mannskæð.

Liðu svo nokkur ár. Átti bóndi tvo syni þá er á fót komust og urðu fullorðnir. Voru það efnilegir menn. [Einhverju sinni kom Stefán bóndi] heim frá kindum. Fór hann inn í bæjardyr og vildi ganga til baðstofu. Voru búrdyr á móti baðstofudyrum; en er bóndi kom að búrdyrum var opið búrið og sýndist hönum húsfreyja vera þar við þélkollur sínar, því hún gjörði skyr um hávetur þar kýr voru margar. Gengur hann síðan í baðstofu; var húsfreyja þar á palli við vinnu sína. Varð bóndi þá reiður mjög og fór fram að búrdyrum og var þá búrið læst eins og vera átti og enginn þar inni. Gengur bóndi þá til baðstofu og formælti mjög ofsjónum sínum; lá hönum þá við æði. Húsfreyja bað hann fara hægra og kvað einhvern þangað farið hafa sem einhvers hefði með þurft og þyrfti hann ekki að verða óður yfir svo litlu; bóndi formælti mjög. Leið nú af veturinn. – Synir bónda hétu Einar og Þórarinn. Voru þeir frumvaxta og vel á fót komnir.

Eina nótt dreymdi húsfreyju er þau hjón lágu í sæng sinni að kona kom að henni og mælti: „Illa gjörði Stefán bóndi þinn þó ég fengi mér skyr hjá þér, þar mér lá á því. Vill það sem bezt til að ég kem þar ekki oft, enda mundi ekki gott af því hljótast. Bið ég þig að virða mér það ekki til lýta.“ Húsfreyja spurði að heimili hennar, en hún kvaðst eiga heima í Bríkarklöpp. „Hefur maðurinn minn orðið of reiður manni þínum fyrir mína skuld því hönum þótti þetta mega komast af með hægra móti og ætlar hann að hefna á manni þínum, og get ég ekki úr því bætt þó ég fegin vilji. Á hefndin að koma fram sumardagsnóttina fyrstu á sonum ykkar. Nú er það ráð mitt að synir þínir fari burtu af bænum og verði sömu nótt komnir úr landeigninni fyrir eður um afturelding; mun þá syni þína ekki saka og það læt ég um mælt, ef þeir lifa þá skal bæði þér og þeim allt að gæfu verða.“ Þótti þessi ummæli síðan verða mjög að áhrínsorðum. Eftir það hvarf konan, en húsfreyja vaknaði og sagði bónda draum sinn; en hann kvað hann einkisverðan hégóma einn, væri ekkert mark að slíku og mundi hann vilja sjá svo til að synir sínir heima væri eins og vant var. Skyldi engin hjátrú villa sig af hinni réttu; væri ekki takandi mark á slíkum hindurvitnum.

Leið nú að sumarmálum. Á seinasta vetrardag tók húsfreyja þyngd nokkra og fór að hátta snemma um kvöldið. Bað hún að allir gjörðu svo og hefðu engan hávaða svo hún gæti sofið. Gjörðu allir sem hún bauð og bóndi líka. Er mælt að hún áður hafi aðvarað syni sína um að forða sér þá háttað væri. Háttaði bóndi ekki fyr en hann meinti þá sofnaða og kvað þá ekki þurfa að vera hrædda við nein hindurvitni eða hjátrú, skyldu þeir sofa vært til morguns. Að svo mæltu háttaði hann hjá húsfreyju og sofnaði fast. En er allir voru sofnaðir fóru þeir á fætur og hlupu burtu með felmtri miklum og voru fyrir afturelding komnir úr landeigninni. Líður svo nóttin að ekki bar til tíðinda. Á sumardagsmorguninn fyrsta var bóndi snemma á fótum og húsfreyja, en er bóndi finnur ekki syni sína varð hann reiður og kvað ekki ofsögum mega segja af þeirra hjátrú og heimsku. En er bóndi kom í fjósið lágu tvær kýrnar hans dauðar á básunum og hengdar. Þótti bónda þetta mjög fram koma; komu þá synir hans heim og þóttist hann þá úr helju heimt hafa og fögnuðu þeim allir vel. Var nú ekki til tíðinda þar til Einar sonur hans giftist og reisti mikið bú á bæ þeim er á Sigtúnum heitir, en Þórarinn bróðir hans fór til Kaupmannahafnar og lærði [stórskipasmíði]. Var hann hinn mesti ríkismaður og þjóð[hagi]. Loksins kom svo að hann varð stórskipasmiður konungs og fór nokkrum sinnum til Íslands, en sagt er hann væri í Kaupmannahöfn til elli, og er hann úr sögunni.