Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Álfkonan í Geirfuglaskeri

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Álfkonan í Geirfuglaskeri

Það er í sögnum haft að einn tíma eftir það að kristni var komin á Ísland og kirkjur almennt settar sóttu Suðurnesingar á tólfæringi út til Geirfuglaskers að afla sér geirfugls svo sem þeir áttu vanda til á hverju vori. En ei er þangað fært nema í logni og ládeyðu; er það haft til marks að þá sé leggjandi að skerinu er ekki lóar á steini við Stafnessurð.

Þeir fengu gott leiði til skersins, en er þeir höfðu dvalizt þar skamma hríð tók veður að ganga upp af landaustri og gjörði þegar brimsúg allmikinn svo að skipverjar komust nauðuglega út á skip sitt, og vantaði þá einn manninn; hafði hann dvalizt eftir í skerinu. En sökum brims og stórsjóa treystust þeir eigi að bíða lengur eður ná manninum og héldu til lands við svo búið. – Töldu allir það víst að hann myndi þar bana bíða í skerinu, en gátu þó ei að gjört.

Annað vor eftir héldu Suðurnesingar enn út til skersins og fengu nú gott leiði. En er þeir koma í skerið er félagi þeirra þar fyrir heill á húfi og vel klæddur, og sá engi maður að hann hefði skort liðið. Þeir fréttu hann eftir með hverjum hætti hann hefði framfærzt þar í eyðiskeri jafnlangan tíma, en hann svaraði þar fáu um, en lét þó að sér hefði allvel liðið. Fór hann síðan í land með þeim og duldi alla um veru sína í skerinu.

Hvítasunnudag hinn næsta flutti prestur embætti að Útskálum (sumir segja það væri að Hvalnesi); en er hann gengur í kirkju sér hann að þar er komin barnsvagga fyrir kirkjudyrnar með ágætum umbúnaði og hvílir barn nýfætt í vöggunni, en dýrleg ábreiða er breidd yfir hana. – Prestur spyr söfnuðinn þegar hvort engi sé þar kominn, er vili kannast við barn þetta og árna því skírnar, en því neita allir. Þar var þá og kominn með öðrum mönnum maðurinn, sá er í skerinu hafði verið; víkur prestur sér nú að honum og gengur fast á hann og biður hann segja sér ef hann eigi barn þetta og vili beiðast að það sé skírt. Maðurinn neitar því þverlega. – Undarlegt þótti presti þetta að engi skyldi vilja kannast við barnið, en kveðst þó allt að einu mundu veita því skírn, lét það auðsætt að í því skyni mundi það vera til kirkjunnar komið. Því næst er barnið skírt og að því búnu lætur prestur leggja það niður aftur í vögguna og búa um sem áður. – Litlu síðar kemur þar kona ókennd að kirkjudyrum og verpir orðum á manninn þann er dvalið hafði í skerinu, og mælti: „Illa gerðir þú það er þú vildir eigi gangast við faðerni barns þessa né beiða að það væri skírt svo sem ég bað þig, skaltu nú og taka þess nokkur gjöld. Læt ég það um mælt að þú hverfir í sjó og verðir að hinu versta illhveli og grandir bæði mönnum og skipum. En ábreiðu þessa skal kirkjan eignast í minningu þess er prestur skírði barn mitt.“ Kastaði hún þá ábreiðunni innar í kirkjuna og hvarf síðan á brott með vögguna. Höfðu menn það fyrir satt að þetta hefði huldukona verið. En ábreiðan var lengi síðan höfð fyrir altarisklæði að Útskálum og þótti fágætur gripur.

En það er frá manninum að segja að honum brá svo við orð konunnar að hann gengur þegar inn á Hólsberg og steypir sér þar fram af í sjó niður. Er það sögn manna að klettur sá er Stakkur er nefndur og stendur við Hólsbjarg hafi sprungið undan honum þá er hann hljóp fyrir bjargið; en klæði hans fundust þar eftir á berginu. – Hann varð nú að illhveli og lagðist inn í Hvalfjörð, er síðan er við hann kenndur, og staðnæmdist þar um hríð.

Illhveli þetta grandaði bæði mönnum og skipum og þótti hinn mesti vogestur. Eitt sinn drekkti hann tveim sonum ekkju nokkurrar er bjó á Bjarteyjarsandi, hinum efnilegustu mönnum. Þeir sátu að fiski, því þá var einatt gott til afla á firðinum. Ekkjunni féll þungt sonamissirinn. Hún var haldin margkunnug. Tekur hún nú til fornra fræða og stefnir illhvelinu úr firðinum og upp í vatn eitt á Botnsheiði er síðan heitir Hvalvatn, og kveður hún hann þar dveljast skulu og granda eigi fleirum. – Er svo sagt að þar hafi um margar aldir síðan sézt leifar af hvalbeinum uppi við vatnið. Lýkur svo þessari sögu.