Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Álfkonan í Skollhól
Álfkonan í Skollhól
Á Eyrarbakka í Árnessýslu er kot nokkurt sem kallað er Eyfakot. Kot þetta er skammt fyrir sunnan og austan íbúðarhús Bakkakaupmannsins þar sem það er nú, en fyrir norðan það og þó heldur til austurs er dæl ein sem kölluð er Hjalladæl. Hún verður svo lítil á sumrum að hana þurrkar því nær upp ef þerrar ganga lengi með sólbakstri. Norðan- og austanvert við dæl þessa er hraunbelti lítið sem nefnt er Hjallahraun. Í hrauni þessu er hóll einn grasi vaxinn að mestu og heitir hann Skollhóll.
Í elztu manna minnum sem nú lifa bjó kona ein öldruð mjög í Eyfakoti er Guðrún hét. Hún átti son einn stálpaðan hér um bil tólf eða fjórtán vetra. Drengur þessi var mikill fyrir sér, ódæll og ógegninn móður sinni. Hann tamdi sér það eitthvert sumar að ganga norður fyrir Hjalladæl og norður á Skollhól; lét hann þar öllum illum látum, hafði í frammi galsa mikinn, hark og háreysti eða hann henti steinum ýmist ofan af hólnum eða upp á hann og utan í hann. Það var og stundum að hann fleygði sér niður í hraungjóturnar utan í hólnum þegar hann var orðinn þreyttur á þessum ógangi og óraspreng.
Þegar þessu hafði fram farið um hríð dreymir móður hans einhverja nótt um sumarið að henni þykir kona koma til sín og biðja sig að hamla syni sínum frá að leggja leiðir sínar norður á Skollhól og enn heldur að sjá svo fyrir að hann hafi þar ekki í frammi ógang þann er hann hafi tamið sér þar um hríð þar sem hann hafi bæði brotið fyrir sér glugga og mölvað fyrir sér klápa og kirnur með grjótkasti og þar á ofan gagnist sér ekki að elda neitt fyrir moldkastinu úr honum. Hún lyktar með því ræðu sína að ef drengurinn haldi teknum hætti um athæfi sitt skuli hann sjálfan sig fyrir hitta. Að svo mæltu hverfur hún frá Guðrúnu.
Um morguninn vandar Guðrún við son sinn um athæfi hans að undanförnu á Skollhól og leggur ríkt á við hann að koma þar ekki framar þar eð mikið muni við liggja og þó mest fyrir sjálfan hann ef hann hlýddi ekki boði sínu. Ekki er þess getið að hann héti móður sinni neinu góðu um það, en hitt er víst að hann mundi skamma stund skipan hennar því fám dögum síðar en Guðrún hafði vandað um þetta við hann fannst hann dauður norður á Skollhól og var nálega brotið í honum hvert bein, og er það trú manna að kona sú er móður hans dreymdi litlu áður hafi átt byggð í hólnum og látið nú drenginn grimmilega gjalda gáska síns.