Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Álfkonan hjá Bakkagerði
Álfkonan hjá Bakkagerði
Á Bakkagerði í Borgarfirði bjuggu hjón nokkur; þar var ekki fleira manna. Eitt sinn fór bóndi heiman og kom ekki heim um kveldið. Þessa nótt kenndi konan jóðsóttar og kveikti því ljós. Litlu síðar kom inn ókennd kona og bauðst til að hjálpa henni. Þáði konan það og þjónaði hin henni, laugaði barnið og reifaði og lagði í rúm hjá móðurinni, fór so í burt og kom aftur með kjötdisk. Það kjöt var heitt og lét hún diskinn við hlið konunnar, talaði ekki en gekk í brott. Ekki þorði konan að eta kjötið og snerti hún það ekki. Að litlum tíma liðnum kom ókennda konan, tók diskinn og sagði: „Óhætt var þér að borða af diskinum og lítið ætla ég það mundi þér að meini verða þótt þú hefðir til tekið, og so máttir þú með fara að barni þínu og þér hefði orðið að hamingju.“ Eftir það fór hún brott, en það er gáta manna að kona þessi hafi búið í Álfaborginni sem þar er nærri. En aldrei varð Bakkagerðiskonan vör við hana upp frá því.