Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Álfkonan hjá Ullarvötnum

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Álfkonan hjá Ullarvötnum

Fyrir austan nálægt Ullarvötnum hvörfu menn hér um fjórir eður fimm sem leituðu eftir fé upp á fjöll, hvör eftir annan sendir frá einum fjárbónda er vantaði allar sínar kindur er hvörgi fundust í byggðinni og fékk því menn til að leita þeirra um fjöll, en þeir komu ei aftur og fundust þeir dauðir.

Bóndi átti son er Sigurður hét; einn góðan dag bjó hann sig út að leita kindanna, kvaddi foreldra sína; var þeim það á móti að hann færi, en hann vildi ei annað en fara; þetta var seint á sumri. Hann fer so á stað og leitar víða og finnur hvörki mennina né kindurnar; kemur hann nú loks að vötnum stórum; þar sá hann ullarflekki með vötnum og kindur þar um grandana; hann gengur að kindunum og hugsar þar séu kindur föður síns og þeirra [er] vöntuðu kindur. Í þessu gengur kvenmaður að hönum, heilsandi hönum blíðlega. Hann tekur henni og spyr hana að nafni; hún segir: „Ég heiti Vandráð eður Valbjörg og þykir mér gott Sigurður,“ segir hún, „að þú ert hér kominn.“ Hann segir: „Hvörnin getur þú vitað nafn mitt þar ég hef aldrei séð þig?“ Hún segir: „Ég þekki bæði þig og föður er Andrés heitir, og ert þú að leita að kindum hans og manna þeirra er hann hefur sent þeirra að leita og er þér það með sanni að segja ég hef valdið hvarfi kindanna og so líka dauða mannanna, og slíkan dauða skalt þú hljóta nema þú gjörir minn vilja.“ Sigurður segir: „Hvör er þinn vilji og lát mig það heyra?“ Hún segir: „Það er minn vilji að þú farir til mín og búir með mér.“ Sigurður segir: „Vita vil ég hvörslags manneskja þú ert áður en ég játa því og máttu vita að ég hræðist ei minn dauða.“ Hún segir: „Ég er álfa kyns og á heima hér nálægt í einum hól.“ Sigurður segir: „Til þín skal ég fara með þeim móti að ég megi byggja mér bæ eins og ég hef vanizt í að vera.“ „Því skaltu mega ráða.“ segir hún. „Það er og eitt enn er [ég] áskil við þig,“ segir Sigurður, „að þú sjáir til að kindur föður míns komist til hans.“ „Það skal og vera.“ segir hún, „og líka skal hann vita að þú sért á lífi og vel haldinn þó ei komir þú til hans.“ „Það líkar mér vel,“ segir Sigurður. „Nú skaltu með mér koma til minna híbýla,“ segir hún. Sigurður gengur nú með henni þar til þau koma að einum hól stórum; sýnist Sigurði sem laglegar bæjardyr með tréverki í kring; leiðir hún nú Sigurð þar inn. Sýnast Sigurði þar hús alllagleg þá inn var komið og auðugt yfir að líta. Hún segir: „Ég hef verið hér í tvö ár síðan ég missti foreldra mína og hef ég lítt unað mér; en ei hef ég viljað neinn af mínu kyni til mín taka og þykist ég nú sæl vera Sigurður minn þar þú ert til mín kominn, og mun nú fara sem faðir minn sagði að ég mundi kyn mitt með mennskum auka.“ Er nú Sigurður þar hjá henni; þótti hönum flest óviðfelldið. Verður hann strax hjá henni að sofa, hvað hönum jók mestan viðbjóð, en hlaut þó so að vera. En so fór að hann felldi sig vel við það.

Einn morgun þá Andrés faðir Sigurðar fór á fætur sá hann hvar kindur hans voru í túninu; taldi hann þær og vantaði öngva. Hönum þykir vænt um, þenkir að Sigurður sé kominn í bæinn og leitar hans og finnur hvörgi. Þykir bónda þetta undarlegt, kallar síðan menn til sín og biður þá að leita Sigurðar. Þeir fóru á stað tuttugu að leita hans um fjöll og hálsa og fundu ekki; sneru síðan aftur so búnir. Féll bónda það so þungt hann lagðist í rúm af sorg. Eina nótt dreymdi hann að hönum þótti kona til sín koma og segja so til sín: „Vertu ei hryggur bóndi; Sigurður sonur þinn lifir með ánægju sem hann hjá þér væri og býr með mér, og kom ég kindum þínum eftir hans beiðni og vilja til þín.“ Gekk hún so burt frá hönum. Vaknar hann þar eftir og er hressari; en um morguninn fer hann á fætur og sér um eigur sínar sem áður hafði hann gjört.

Liðu nú þrjú ár að ei spyrst til Sigurðar. Um haustið snemma á því þriðja ári dreymir bónda að hönum þótti Sigurður sonur sinn til sín koma og heilsa sér og segja: „Það vilda eg faðir minn að þú kæmir til Ullarvatna aðfangadagskvöld jóla og þú fengir með þér prestinn, sr. Eirík. Þá þið komið þangað munu þið sjá bæ minn og hann opinn standa. Þið skuluð ganga í bæinn og bið prestinn að standa í göngum og taka á móti konu er koma mun úr baðstofu og sjá so til að ei sleppi úr höndum hans því þar liggur mikið við; en þú skalt ganga í baðstofu og standa á gólfi og guða þar; geti þetta ei orðið á þessu kvöldi þá verður það ei síðar og fær þú þá aldrei að sjá mig oftar.“ Fer Sigurður þá á burt, en bóndi vaknar og hugsar drauminn, þenkjandi að gjöra sem Sigurður bað hann í svefni; því draumur þessi muni ekkert heilarugl, heldur sönn vitran. Finnur hann nú prestinn sr. Eirík og segir hönum frá því er Sigurður talaði við hann í svefninum. Prestur segir að það muni satt vera því sig hafi löngum grunað að hann hjá álfum haldinn væri og segist skuli fara með bónda að hvörju sem yrði.

Og þá tími þótti hentugur á að fara búa þeir sig tveir til ferðar, prestur og bóndi, og fara so á stað. Koma so að Ullarvötnum aðfangadagskvöld fyrir jól. Þeir sjá bæinn og stendur hann opinn; síðan ganga þeir inn, prestur stendur í göngum, en bóndi gengur í baðstofu. Þá bóndi kom í baðstofu sá hann son sinn sitja á kistu fyrir framan rúm er hann sá konu í sitja; hún hélt á barni, en Sigurður var ull að karra; rugga er fyrir framan rúmið og barn í; ljós brann á kerti. Bóndi guðar á gólfinu; við það verður konunni so bilt að hún kastar barninu í rúmið og stökkur yfir rugguna og ofan og ætlar út; en þá hún kemur í göngin tekur prestur um hana miðja. Á hann nóg með að halda henni, en hann var þó haldinn meir en tveggja maki að burðum og þar með nóg lesinn í fornfræði. Koma þeir þá úr baðstofunni bóndi og sonur hans með ljós; fer nú prestur höndum [um] konuna; af því gæfðist hún; eru þeir þar um nóttina, og vakir prestur yfir henni; er hún stundum í ómegin, en þess á milli er hún að gráta og biðja prest að sleppa sér; en það gjörir hann ekki. Leið so til dags. En þá dagur var kominn búa þeir sig til ferðar; skilst Sigurður við bæ sinn; en þeir taka börnin og konuna með sér og lifandi pening er þar var. Er það hald manna að Sigurður hafi slegið huldu yfir bæinn þá hann skildist við hann.

Nú heldur það allt leiðar sinnar frá vötnunum allt þar til það kemur heim á bæ Andrésar bónda; veður var gott og bjart loft á meðan það var á ferð þeirri og tunglsljós og áðu því hvörgi. Var prestur þar viku hjá bónda; vildi hönum mjög örðugt ganga með konukindinua, og fyrir bón bónda og Sigurðar lét prestur hana með sér fara so hún var hjá hönum um veturinn. Lagaðist hún mjög þann tíma. Sigurður og börn hans voru hjá Andrési bónda vel haldin, en lifandi pening Sigurðar var komið fyrir um sveitina, það faðir hans og prestur gátu ei tekið. En á áliðnu vori gaf prestur Sigurð í hjónaband og þá huldukonu er hann hafði hjá verið. Unnust þau vel og bjuggu þar í sveit, þar þessi sr. Eiríkur átti yfir að segja; sótti hún kirkju með bónda sínum; en ei hef ég heyrt að hún til altaris gengi eður sakramenti tæki og ei heldur hvört hún stöðug væri undir messu. Hún var góðgjörandi kona so hún var elskuð af fólki; líka var hún siðferðisgóð á heimili og hataði ósamþykki.

Fjögur börn átti hún við manni sínum er á legg komust og munu enn lifa afkomendur þeirra fyrir austan. Heyrt hef ég sagt það að þeirra börn hafi verið undarlegri en annað fólk og ég hefði því trúað þó mér hefði það sagt verið að sr. Sæmundur Hólm á Helgafelli væri þeirrar ættar; hann segist og af huldufólki kominn vera, en er dalur á þá ætt að telja. Það hef ég heyrt að prestur hafi skírt fyrrnefnda konu. – Nú veit ég ei fremur hér um.