Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Álfkonur hlýða á jólalestur
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Álfkonur hlýða á jólalestur
Álfkonur hlýða á jólalestur
Maður er nefndur Hannes; hann bjó á Fornastöðum í Fnjóskadal. Eina jólanótt þegar búið var að lesa lesturinn sagði hann í hljóði við konu sína: „Ég sá sjón um lesturinn; ég sá þrjár konur setjast á pallstokkinn, allar í rauðum klæðum, og sitja þar allan lesturinn, ganga síðan burtu.“ Þetta sá enginn annar en bóndi; hann var hinn mesti sómamaður og sannorður og rengdi hann því enginn maður.