Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Álfur og Alvör

Margar eru munnsögur um uppruna álfa. Þessar eru almennastar sem nefndar eru: Í Árnaskjali um höfuðþvott barna Evu; önnur um það nær englarnir óhlýðnuðust drottni sínum steypti hann þeim af himnum ofan, féllu sumir í undirdjúpin, en sumir í loftið milli himins og jarðar, sumir í vötnin og þá sumir á jörðina, og eru þeir misjafnir. Sumir vilja sem minnst mönnunum til miska gjöra, aðrir fremur, og er það á misjafnri tröppu. Því heita þeir: loftandar, jarðandar og vatnaandar eða vatnaskrattar. Sýna þeir sig í ýmsum myndum sem bágt er upp að tína enda gjöra sögurnar sjálfar það bezt.

Hin þriðja frásaga um uppruna trölla og álfa er þessi: Í öndverðu skapaði guð manninn af moldu og konu handa honum einnig af moldu. Þessi kona hans var svo ókyr hjá honum og stygg að Adam gat engu tauti við hana komið og er guð vildi leiðrétta hana tjáði það ekki. Því skapaði guð henni mann eftir hennar eðli og nefndi hann Álf, en hana Alvöru, og af þeim eru öll tröll og álfar komnir.