Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Árni á Melabergi

Það var forðum venja á Suðurnesjum að fara á hvurju ári út í Geirfuglasker. Þar er svo illt við að lenda, má aðeins í einum stað þegar bezt og blíðast er, og þó naumlega. Því forgengu oft skip í þessum ferðum. Árni hét maður; hann bjó á Melabergi. Hann átti þrjá bræður sem bjuggu á næstu bæjum. Árni fór eitt haust út í Geirfuglasker með öðrum fleirum á skipi og fór sem oftar að skipið forgekk. Síðan leið veturinn, en um vorið kom Árni að Hvalsnesskirkju einn sunnudag heill á hófi og vel útlítandi. Menn spurðu hvurnig hann hefði komizt af og hvar hann hefði verið um veturinn. Hann var fálátur yfir því og sagði að þá skipti það litlu. Hann var heima um sumarið og bar ekkert til tíðinda. En um veturinn eftir bar svo til einn sunnudag þegar þar var margt fólk og Árni líka að stórvaxin kona gekk í kirkjuna um messuna. Hún bar vöggu sem barn var í og var breiddur yfir hana undur fallegur dúkur, aðrir segja hökull. Hún setti vögguna á kirkjugólfið og stóð þar hjá henni þangað til messan var úti. Þá gekk presturinn fram á kirkjugólfið og spurði hvort nokkur væri sá innan kirkju sem fyndi skyldu sína til að gangast fyrir að barn þetta yrði skírt. Því neituðu allir. Þá víkur prestur sér að Árna og segir: „Áttú ekkert skylt við barnið að tarna, Árni?“ „Nei,“ segir Árni. Prestur svaraði: „Ekki varstu með mönnum í vetur og valla hefir þú komizt af skipbroti af þínum ramleik, og ef þú átt ekki skylt við þetta barn þá þori ég að forsvara alla aðra sem hér eru.“ Árni sagðist ekki eiga þar neitt skylt við. Ókennda konan lítur þá reiðuglega til Árna og segir: „Illa launar þú mér lífgjöfina og veturvistina enda skaltu aftur í sjóinn fara – og verða að þeim versta og mannskæðasta hval og óhamingja skal fylgja ætt þinni í átjánda lið.“ Hún tók þá dúkinn eða hökulinn og fleygði inn í kórinn og sagðist gefa það kirkjunni og á hún enn nú þann hökul eða altarisklæði.[1] Eftir það hvarf konan og vaggan.

Árni ærðist og hljóp úr höndum þeirra sem vildu halda honum, og steypti sér fram af sjávarklettum hjá Melabergi. Bræður Árna voru við kirkjuna og urðu þeir allir að steinum á heimleiðinni. Þeir steinar sjást hjá kirkjuveginum og eru stórir drangar og ganga út úr þeim mjóir drangar sem handleggir.

Það fylgdi ætt Árna í átjánda lið að í henni var alltaf einhvur ólánsmaður. Seinastur þeirra er talinn Einar á Iðu á Skeiðum sem átti barn með dóttur sinni. Sumir segja að ekki muni enn vera komnir átján liðir frá Árna. – Árni varð að versta hval og lagðist inn í Hvalfjörð og drekkti mörgum skipum. Þá bjó gamall bóndi á Kjalarnesi. Hann var kraftaskáld. Hann átti tvo syni; þeir fóru á bát yfir á Akranes, en hvalurinn drekkti þeim á leiðinni. Þá reiddist bóndinn og kvað hvalinn inn úr Hvalfirði og svo undir jörðu inn í Hvalvatn undir Hvalfelli og þar sprakk hann. Og er sagt að enn sjáist þar bein hans og líkist mannsbeinum. Eftir hvarf Árna var um langa tíð reimt á Melabergi.

  1. Það er naumast satt að Hvalsnesskirkja eigi enn hökulinn eða altarisklæðið sem sumir segja og líklegra er því Þorkell bóndi Helgason á Geldingaholti, sem er dáinn fyrir 17 árum, sagði svo að þegar hann réri suður í Höfnum var ekki eftir af þessu altarisklæði nema dálítil bót og sá hann hana og þótti mikið falleg. Brá á hana ýmsum litum eftir því sem henni var haldið. [Hdr.]