Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Íma álfastúlka

Jón hét maður Guðmundsson og bjó á Berunesi í Reyðarfirði í tíð Jóns sýslumanns Þorlákssonar. Af honum gengu margar sögur eftir hans daga því hann þótti fjölfróður og flæktur við fjölkynngi eins og margir á þeirri tíð. Ekki veit ég ætt hans né afsprengi. Hann ólst upp á Berunesi og þá hann var svo þroskaður fylgdi hann fé. Eitt sinn er þess getið að hann sat yfir ám í botnum nokkrum í fjallinu upp af bænum að kom til hans ung stúlka og lét mjög vel að honum. Hann spurði hana að nafni. En hún kvaðst Íma heita, en faðir sinn og móðir ættu byggð þar í fjallinu. Hún lét mjög blíðlega að honum og sagði frá híbýlaháttum föður síns. Eitt með öðru sagði hún að faðir sinn ætti bók sem væri á margs konar fræði merkileg og læra mætti margt af og eitt með öðru að sá yrði kraftaskáld sem læsi hana og kæmi fátt óvart. Jón spurði hana hvort hún gæti ekki útvegað sér bókina. Hún sagði sér það nær því ómögulegt því faðir sinn geymdi hana svo vandlega. Jón lagði fast að henni að útvega sér hana lítinn tíma. Hún kvaðst flest til vinna, gæti hún náð elsku hans, vildi því reyna að ná henni, en kæmist faðir sinn að því, riði það líkast á sínu lífi. Var hún svo hjá honum þar til Jón rak féð heim um kveldið. En daginn eftir kom hún með bókina og bað hann vera sér trúan, því hún kvaðst vitja bókarinnar að hálfum mánuði liðnum. Jón lét vel yfir því og lét mjög blíðlega við hana. Á ákveðnum tíma kom hún og bað hann um bókina, líf sitt og hans væri í veði, kæmist þetta upp um sig. En Jón kvaðst ekki geta misst hana og sleppti henni aldrei. Hún lagði hönd um háls honum og bað hann grátandi að svíkja sig ekki í réttum tryggðum. En hann sagði það hjálpaði ekki bón né beiðni, hann sleppti ekki bókinni. Hún sagði: „Illa gjörir þú þetta, þar sem líf mitt liggur við; samt get ég ekki breytt við þig eins og þú hefur til unnið, vegna elsku sem ég hef á þér fengið.“ Skildi hún við hann hrygg og reið. Heita þar síðan Ímubotnar er þau fundust.

Eftir þetta, nokkru fyrir jól um veturinn, dreymdi Jón eina nótt að maður kom til hans, kastaði á hann kveðju sinni og sagðist kominn að vara hann við háska þeim sem yfir honum vofði. Það ætti að vitja til hans bókarinnar sem Íma hefði léð honum, á jólanóttina, því nú væri komið upp hið sanna. „Faðir hennar ætlar að drepa þig; við verðum fjögur: karl, kerling, Íma og ég. Ég vara þig við þessu fyrir það að mér er leitt lífið. Ég er mennskur að kyni, en var numinn burt af álfum þessum. Nær miðri nótt mun verða gengið í bæ þinn. Þú skalt sitja upp á palli og hafa hjá þér sveðju mikla, og undireins þú heyrir komið við baðstofuhurðina skaltu bregða við ofan í uppgönguna og drepa þann sem undan fer og svo hvern að öðrum. Ég mun lítið hafa mig í frammi, en hlífa þér sem ég get við atlögum þeirra. Þér mun auðnast að bera af þeim. Ég mun hjara eftir særður mjög. En mundu eftir að stytta líf mitt. Því ég vil ekki lengur lifa. Dragðu þau svo úr bæ þínum og brenndu og vertu búinn að þessu fyrir dag.“ Eftir þetta hvarf maðurinn honum. En Jón vaknaði.

Allt gekk þetta eins og honum var sagt fyrir. Fólk fór allt til kirkju á jólanóttina svo Jón var einn heima. Hann minnist þessa í einum mansöng fyrir rímum sínum,[1] þar sem hann segir:

Vissi það guð í vanda miklum var ég þá staddur
er fjórir gjörðu fullir klækja
furðu ljótir að mér sækja.
  1. Hann kvað rímur og ýmislegt fleira; séð hef ég rímur hans af Trójumanna bardaga, en fleiri ekki.