Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Ólafur kóngur Haraldsson og tröllkonan

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Ólafur kóngur Haraldsson og tröllkonan

Svo er sagt þá Ólafur kóngur Haraldsson var fimm vetra fór hann á skipi með fóstra sínum og sigldu þeir með björgum fram. Þá kom tröllkona fram á bjargið og spurði hvort skáld væri á skipi. En þeir sögðu ei vera. Þá kvað kerling vísu þessa:

„Komi sótt,
kveini drótt,
kyngi hríð
og gjöri sult víða;
hrynji mjöll,
hylji fjöll,
hatist menn,
deyi fé skatna.
Gremjist hauður,
glatist sauður,
gjöri hregg,
tapist fé seggja;
fáist hatur,
firrist matur,
farist her
og gjörist enn ver.“

Ólafur Haraldsson kvað:

„Gjöri regn,
gefi logn,
gefi gott fang,
og komist menn þangað;
firrist snjór,
falli sjór
fargist hatur,
fái byr skatnar.
Grói hauður,
gleðjist sauður,
gjöri gott ár
og færi baut vora;
linni nauð,
lifni þjóð,
líði vetur,
og gjöri enn betur.“

Þá sprakk tröllkonan.