Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Óvættur í Látrabjargi

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Óvættur í Látrabjargi

Á dögum Guðmundar biskups hins góða Arasonar var Látrabjarg í Barðastrandarsýslu til engra nytja eigendum þess sökum meinvætta er héldu bjargið. Kærðu þeir vandræði sín fyrir biskupi þá er hann eitt sinn var á ferðum sínum um Vestfirði og báðu hann liðsemdar. Biskup hét að hlutast hér til og fer hann í bjargið að forvitnast um hvað vandræðunum mundi valda. Þá er hann hefur litazt þar um sér hann kall einn líkari tröllum en mennskum mönnum. Biskup verpur orðum á hann og spyr hvort hann banni bændum bjargnytjarnar, og kvað hann það satt vera. Biskup deilir á hann um slíkt og biður hann burt fara. Þá mælti kallinn: „Einhvorstaðar verða vondar kindur að vera; ef ég skal burt úr bjarginu þá hljótið þér að ákveða mér hæli annarstaðar. En vita skuluð þér það herra biskup að ég er ekki smáþægur um slíkt, því margt er fólk á búi með mér. Ég hefi tólf skip fyrir landi og tólf menn á hvorju, hafa þeir með að fara tólf skutla hvor og fyrir hvorjum skutli farast tólf selar. Hvorn sel sker ég í tólf leingjur og hvorja lengju í tólf stykki og þá er einn maður um stykki hvort og tveir um totann.“ Biskup hlýddi tölu kalls og leizt honum vandhæfi að ráða honum bústað. Leyfði hann honum síðan nokkurn hluta af bjarginu og heitir sá hluti þess Heiðnabjarg og eru þar gjár tvær eða hellar sem Jötunsaugu heita; þókti þar lengi kenna reimleika.

Liðu svo aldir fram að engir áræddu vaðsig í Heiðnabjargi, því óhöpp fylgdu jafnan viðburðum þeim. Þess er getið að einu sinni fór maður vaðsig í bjarg þetta og sem hann var ofan kominn í bjargið fundu þeir sem vaðnum héldu að laus var og drógu upp. Vaðurinn var þríþættur og skornir allir þættirnir. Fóru þeir með vaðinn heim að Látrum og sögðu sem gjörzt hafði. Kall blindur var þar á Látrum og biður hann þeir sýni sér vaðskurðinn; þeir gjöra sem kallinn beiddi og þuklar hann og þefar af hvorjum þáttarenda sér í lagi og segir: „Einhvors kyns ókind hefur skorið tvo þættina, en mennskur maður hefur skorið hinn þriðja. Má vera að maðurinn sjálfur hafi það gjört, og farið því með festi á bjargið og hleypið niður í sama stað.“ Þeir gjöra sem hann bauð og sem festin var niður hlaupin var maðurinn þar fyrir og batt sig í hana, en þeir drógu upp. Sagði hann þá þann atburð að óvættur í bjarginu hefði skorið á festina og sundur tvo þættina. Kvaðst hann þá séð hafa að sá eini þátturinn sem hélt mundi ekki þola þunga sinn og því hefði hann skorið hann.

Síðan var ekki tilraun gjörð að síga í Heiðnabjarg fyrr en Björn bóndi á Látrum byrjaði það um aldamótin 1800.