Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Ýmsar sagnir um uppruna álfa

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Ýmsar sagnir um uppruna álfa

Margar eru sagnir um álfa og upphaf tilveru þeirrar, en sú er almennust sem er í Árnaskjali. Önnur er saga um þá föllnu anda er lentu í loftinu millum himins og jarðar (loftanda), þá sem lentu á jörðunni, í sjó og vötn, en þeir sem stríddu við guð, í undirdjúpin. Þá er um Álf og Álfvöru og loksins bætist við sú frásaga sem stendur í kvæði einu er Skriftarminning heitir, orkt 1620 af Þorleifi Þórðarsyni (Galdra-Leifa; f. 1560)[1] þannig:

Eftir það Kain sló Abel bróður sinn í hel syrgði Adam hann í þrjátíu ár. Á þeim tíma setti Adam Evu konu sinni fjærvistir, en tapaði þá allt um það ekki eðli sínu, heldur féll sæðið frá honum í óhentugan stað, gat því engan líkama fengið og þar af urðu álfar og ósýnilegir.

  1. Fæðingarár hans er óvíst, en talinn er hann dáinn 1647.