Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Þórdís þrjózka

Einu sinni bjuggu rík og velmetin hjón á Vestfjörðum og voru þau lengi saman svo þau áttu ekkert barn þar til konan varð ólétt og fæddi meybarn frítt og fagurt. Það var nefnt Þórdís og elst hún upp með foreldrum sínum og var hún gáfuð og myndarleg til munns og handa, en svo þrjózk að hún gjörði það helzt er aðrir vildu sízt. Barði þó faðir hennar hana óskaplega, en það vildi lítið duga.

Líður svo þar til hún er átján vetra. Var hún þá orðin afbragð annarra jafnaldra stúlkna að fríðleik, handyrðum og gáfum. Þá var það aðfangadagskveld fyrir jól að fólk fór að búa sig til kirkju og átti ein vinnukona að vera heima og hjá henni Þórdís bóndadóttir (sem ætíð var kölluð hin þrjózka fyrir óþægð sína), en það var eins og fyrr að hún vildi það ekki er henni var sagt og sagðist ekki heima verða, og lét faðir hennar það orðalaust af því hátíðin var. Verður vinnukonan ein eftir heima, en Þórdís og hitt fólkið fór til kirkju og kom ekki heim fyrr en á jóladagskvöld. En þá sést vinnukonan ekki og ógjört það er hún átti að gjöra, en seint um kvöldið varð bónda gengið í útiskemmuloft er þar var; finnur hann þá vinnukonuna í rúmi sem var í loftinu og var henni ógnar illt, einkum fyrir hjartanu. Bóndi spyr hvurnig því sé varið að hún liggi þar. Hún segir: „Ég hélzt ekki við í bænum og flýði hingað og grúfsaði mig ofan í rúmið,“ en ekki vildi hún segja við hvað hún hefði orðið vör. Batnar henni bráðum.

Líður nú þar til annað aðfangadagskveld fyrir jól. Þá fer fólk að búast til kirkju, en bóndi segir það sé bezt að haga so til að enginn þurfi að vera heima. Þórdís segir: „Ég skal nú vera heima.“ Bóndi segir hún skuli fara, en þó verður Þórdís að ráða. Fer svo fólkið, en Þórdís flýtir sér að sópa bæinn og annað smávegis er hún hélt móðir sín mundi vilja gjöra láta, og að því búnu fer hún upp á hápall í baðstofunni og sezt þar á rúm og fer að lesa í bók við kertaljós. En þegar nokkuð er komið fram á nótt heyrir hún gengið um bæinn frammi og þar næst koma inn tveir menn með vendi og skyggnast um bæinn og segja: „Hér þarf ekkert að sópa, hér er allt hreint,“ og fara svo ofan aftur. Síðan koma aðrir tveir með borðbúnað og alls slags vist og ölföng; setja þeir borð eftir endilangri baðstofunni og passa til sæti báðumegin við borðið og bera á það rétti er þeir komu með. Svo kemur inn tíu kvenmenn og tíu kallmenn og setjast til beggja hliða við borðið. Þórdís hafði skugga á andlitinu á sér og lézt alltaf horfa á bókina, en horfði þó nákvæmlega á allt sem fram fór. Þegar allt fólkið er setzt við borðið kemur inn ungur maður fríður og góðmannlegur og leiðir með sér gamla konu. Hann gengur að hápallinum og heilsar upp á Þórdísi, en hún anzar ekki og reigir sig aftur á bak, en hann fer frá henni og tekur í hönd konunnar gömlu og leiðir hana upp að borðsendanum og setjast þau þar. Er síðan tekið til snæðings og sá Þórdís að þar voru svo dýrir og margháttaðir réttir og vínföng að hún hafði slíkt aldrei séð. En þegar það er búið að sitja tímakorn stendur maðurinn ungi upp og tekur af öllu sem var á borðinu og fer með upp að hápallinum til Þórdísar og segir: „Viltu ekki smakka á þessu? Gerðu það fyrir mig.“ Þórdís hrærði ekki hendurnar og lézt ekki sjá það, en hann fór burt aftur með döpru bragði og settist niður. Þá segir kelling: „Þú þurftir ekki annað en halda hún Þórdís þrjózka mundi taka við þessu.“ Þrisvar fór hann til Þórdísar og bauð henni ýmislegt, en alténd fór á sömu leið og var hann daufari þegar hann fór burt en áður, og kelling sagði hið sama, en stundum: „Það var eftir af henni Þórdísi þrjózku að tarna.“ En þegar komið var undir dag voru borð upp tekin og fólkið fór að þyrpast út, en konan og ungi maðurinn fóru seinast, og þegar hann gengur burt fer hann upp að pallinum og réttir að Þórdísi böggul æði stóran og segir: „Æ, taktu nú við þessu fyrir mig.“ Þórdís leit ekki við og hrærði ekki hendurnar, en hann gekk burtu og var mjög daufur, en kelling sagði: „Þú þarft ekki annað en halda hún Þórdís þrjózka muni gjöra að orðum þínum.“ Síðan leiðir hann kellinguna með sér út og allt verður hljótt.

Um kvöldið kemur fólkið heim og spyr bóndi dóttur sína hvurnig henni hafi liðið heima, en hún sagði: „Ekki nema vel,“ og segir föður sínum frá öllu er hún hafði heyrt og séð. „Þótti mér það fara vel að, bæði það sem það lék sér og eins við máltíðina,“ segir Þórdís. Bóndi varð reiður mjög við dóttur sína út af að hún skyldi ekki þiggja það sem henni var boðið, „og verður það líklega til að leiða ógæfu yfir þig og okkur.“

Nú líður þetta ár til annarra jóla og býst fólk til kirkju og segist Þórdís ætla að fara með. Bóndi segir hún skuli vera heima og hótar henni hörðu ef hún þiggi ekki það sem henni verði boðið, og fyrir ógnun föður síns þorir Þórdís ekki annað en vera heima. Fer fólkið, en Þórdís fer að öllu eins og áður og sezt upp á hápallinn. Kemur fólkið inn og er allt eins og áður. Ekki er vert að orðlengja það að allt gekk til eins og fyrri jólin. Kom ungi maðurinn þrisvar til Þórdísar og bauð henni ýmislegt og seinast þegar það fór kom hann með böggulinn og bauð Þórdísi, en hún þáði ekkert, hvurki það né annað, og lét sem hún sæi ekkert, en kelling hafði alténd sömu orð og fyrri jólin. Þar eftir fóru þau burt og sýndist Þórdísi hann vera ógnarlega dapur þegar hann fór. En svo líður dagurinn til kvölds og kemur fólk heim. Spyr bóndi dóttur sína hvurnig henni hafi liðið, en hún segir allt sem var og verður bóndi hálfu reiðari en fyrra sinnið og jagar dóttur sína, segir að það sé líkast að hún taki gjöld fyrir þvermóðsku sína því huldufólkið sé hefnigírugt ef því er móti gjört, – „og gott ef ég og fólk þitt geldur þín ekki.“

Líður nú til þriðju jóla og býst fólk enn til kirkju og segir bóndi að Þórdís skuli nú fara með. „Ónei,“ segir Þórdís, „ég fékk ekki að fara í fyrra þegar ég vildi fara og skal ég nú heima vera.“ En þá tók faðir hennar hana og flengdi hana duglega og sagðist skyldi ganga næst hennar lífi ef hún tæki ekki við því sem henni yrði boðið, og þorði Þórdís ekki annað en lofa því. Síðan fer fólkið, en Þórdís fer að öllu eins og fyrr og allt gengur allaðeina til og hin jólin að fólkið kemur og ungi maðurinn býður Þórdísi af því sem með er farið og þiggur hún ekki, en fyrir daginn fer það að þyrpast út, en ungi maðurinn kemur upp að hápallinum með böggulinn og býður Þórdísi að taka við og eiga, en kelling stóð við og hvessti augun á Þórdísi og fannst henni sér einhvurn veginn hverfa hugur svo hún rétti hendina og tók við bögglinum, en talaði ekki orð. Fara þau síðan burtu, en Þórdís sá að glaðnaði yfir unga manninum þegar hún tók við bögglinum. Fer hún nú að leysa hann upp og er þá innan í honum yfirmáta fallegur kvenfatnaður og gullhálsfesti með gullnisti við er átti að hafa á brjóstinu, einnig logagyllt silfurbelti.

Líður svo þar til fólkið kemur heim og spyr bóndi dóttur sína hvurnig nú hafi farið. Hún segir allt eins og farið hafði og sýnir honum gripina og klæðnaðinn og líkar nú bónda betur en áður. En næstu nýársnótt eftir hvurfu þau bæði Þórdís og faðir hennar og kom hann aftur á nýársdag, en hún aldrei, og eftir það hvurfu hjónin (foreldrar Þórdísar) hvurja nýársnótt, en ekki talaði bóndi um hvað af dóttur sinni mundi orðið, en eftir hann dauðan fannst skrifað að hún væri hjá huldufólki er byggi í hólum er þar væri í landinu og gift þeim unga manni er fyrr var um getið og væri hún þar í mestu metum af öllum, en gamla konan var móðir hans. Lýkur svo þessari sögu.